Blikar í undanúrslit á kostnað Vals

Einar Karl Ingvarsson með boltann í kvöld. Gísli Eyjólfsson sækir …
Einar Karl Ingvarsson með boltann í kvöld. Gísli Eyjólfsson sækir að honum. mbl.is/Arnþór

Breiðablik sló Val út í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld. Blikar höfðu betur 2:1 en sigurmarkið kom í uppbótartíma.

Breiðablik er þar með komið í undanúrslit keppninnar en bikarmeistararnir 2015 og 2016 eru úr leik.

Þegar leikmenn liðanna virtust vera farnir að bíða eftir framlengingu klikkaði rangstöðugildra Valsmanna. Sakleysislegt vipp inn á vítateiginn frá Andra Rafni Yeoman varð grundvöllur að dauðafæri sem varamaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson nýtti sér og skoraði sigurmarkið. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 1:0 fyrir Breiðablik en Sveinn Aron Guðjohnsen, fyrrverandi leikmaður Vals, skoraði af stuttu færi á 20. mínútu eftir skyndisókn og fyrirgjöf Willums Þórs Willumssonar frá vinstri. 

Valsmenn blésu til sóknar strax í upphafi síðari hálfleiks og voru mestmegnis með boltann í síðari hálfleik. Sigurður Egill Lárusson skoraði jöfnunarmark þeirra af stuttu færi eftir skyndisókn og fyrirgjöf Andra Adolphssonar frá hægri á 51. mínútu. 

Í síðari hálfleik virtust Valsmenn mun líklegri til að tryggja sér sigur í venjulegum leiktíma en svo fór þó ekki og topplið Pepsí-deildarinnar þarf að sætta sig við að ljúka keppni í 8-liða úrslitum í bikarnum þetta árið. 

Valur 1:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Þremur mínútum er bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert