Sannfærandi Selfyssingar í nýliðaslag

Magdalena Anna Reimus sækir að Elísabetur Freyju Þorvaldsdóttur í kvöld.
Magdalena Anna Reimus sækir að Elísabetur Freyju Þorvaldsdóttur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfyssingar fóru með 3:0-sigur af hólmi í Víkinni í kvöld þegar þeir mættu HK/Víkingi í nýliðaslag í Pepsi-deild kvenna í fótbolta. Fyrir leikinn var Selfoss í sjöunda sæti og HK/Víkingur í því áttunda og því víst að þetta yrði slagur.

Leikurinn bauð upp á færi á báða bóga en markabelgurinn sprakk á 79. mínútu þegar Magdalena Anna Reimus slapp í gegn eftir stungusendingu af miðjunni, 1:0 fyrir gestina. Virkilega vel klárað.

Magdalena var svo aftur á ferðinni 3 mínútum seinna þegar hún átti fallega fyrirgjöf beint á kollinn á Kristrúnu Rut sem var virkilega vel staðsett og framlengdi boltann í markið með kollinum, 2:0.

Þriðja og síðasta markið skoraði varamaðurinn Alexis Kiehl eftir langa sendingu frá Magdalenu fram á við sem endaði úti á vinstri kanti, þar tók hún bakvörinn í bakaríið og átti þrumuskot yfir Björk Björnsdóttur í markinu. Lokatölur 3:0 fyrir gestina.

Fram undan er erfiður róður hjá HK/Víkingi á meðan Selfyssingar geta aðeins andað léttar.

HK/Víkingur 0:3 Selfoss opna loka
90. mín. Alexis Kiehl (Selfoss) skorar 0-3. Reimus skutlaði boltanum fram á við og þar var Kiehl mætt eins og elding, tók bakvörðinn á, fór framhjá henni og átti svo gott skot yfir Björk Björns í marki HK/Víkings. Virkilega vel að þessu staðið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert