Stjarnan lagði KR að velli í markaleik

Betsy Hassett sækir að Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur á Alvogenvellinum í …
Betsy Hassett sækir að Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur á Alvogenvellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stjarnan vann öruggan 4:2-sigur á KR í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Alvogenvellinum í kvöld.

Jafnræði var með liðunum fyrsta stundarfjórðunginn eða fram að fyrsta markinu. Það skoraði Harpa Þorsteinsdóttir af stuttu færi eftir sendingu frá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur.

Eftir það var leikurinn einstefna að marki KR sem réð illa við sprækar Stjörnukonur. Staðan var orðin 2:0 á 24. mínútu er Þórdís skoraði glæsimark utan teigs, sneri boltann í fjærhornið. Harpa skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Stjörnunnar á 36. mínútu eftir góða sendingu frá Telmu Hjaltalín.

Stjörnukonur voru áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik en KR minnkaði þó muninn á 51. mínútu með frábæru marki. Katrín Ómarsdóttir gerði það úr hjólhestaspyrnu innan teigs er hún stýrði boltanum upp í fjærhornið, fram hjá Berglindi Hrund Jónasdóttur í markinu.

Katrín Ásbjörnsdóttir bætti svo við fjórða marki Stjörnunnar á 65. mínútu eftir að hún slapp í gegn eftir sendingu Telmu. KR-ingar náðu sárabótamarki í uppbótartíma eftir slæm mistök Berglindar í marki Stjörnunnar er hún missti boltann til Móniku Hlífar Sigurhjartardóttur sem skoraði í autt markið.

Stjarnan er nú með 13 stig, áfram í 4. sæti. KR er áfram í 9. og næstneðsta sæti með þrjú stig.

KR 2:4 Stjarnan opna loka
90. mín. Rólegar loka mínútur. Stjörnukonur reyna að bæta við marki en þær hafa ekki alveg náð þessari úrslitasendingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert