Jafn vinalegt í Götu og í Vestmannaeyjum

Kaj Leo i Bartalsstovu hefur leikið mjög vel með ÍBV …
Kaj Leo i Bartalsstovu hefur leikið mjög vel með ÍBV það sem af er tímabilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færeyski landsliðsmaðurinn Kaj Leo i Bartalsstovu hefur leikið einkar vel fyrir knattspyrnulið ÍBV á yfirstandandi keppnistímabili. Hann fór á kostum í sigri Eyjamanna á Grindavík, 3:0, á Hásteinsvelli á sunnudaginn. Glöggir taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja að um hafi verið ræða besta leik Kaj Leo fyrir liðið í sumar. Hann lagði upp fjölda marktækifæra fyrir félaga sína í umræddum leik.

„Mér líkar afar vel í Vestmannaeyjum. Fólkið í Eyjum er indælt og félagið er til fyrirmyndar,“ sagði Kaj Leo þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær. „Síðasti leikur okkar var mikið betri en nokkrir á undan. Örugglega okkar heilsteyptasti leikur til þessa.“

Kaj Leo, sem varð 27 ára gamall 23. júní er að leika sitt annað keppnistímabil með ÍBV. Sumarið 2016 kom Kaj Leo til FH á miðju tímabili og lék nokkra leiki en segist að eigin sögn ekki hafa náð sér á strik. Þrátt fyrir reynsluna hjá FH þá var enginn vafi í huga Kaj Leo að ganga til liðs við ÍBV þegar forráðamenn félagsins sóttust eftir kröftum hans.

„Það var nokkuð ljóst eftir tímabilið með FH að ég var ekki inni í framtíðarmyndinni hjá félaginu. Þar af leiðandi var ég alveg tilbúinn að fara til Vestmannaeyja þegar forráðamenn ÍBV sóttust eftir að fá til liðs við sig. Í mínum huga skipti það mestu máli að fá tækifæri til þess að leika eins oft og mikið af fótbolta og mögulegt er. Það tækifæri fékk ég hjá ÍBV og er í dag afar ánægður með þá ákvörðun að taka tilboði félagsins,“ sagði Kaj Leo.

Sjá viðtalið í heild sinni ásamt úrvalsliði 11. umferðar og stöðunni í M-gjöfinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert