Er alveg sama meðan krossbandið slitnar ekki

Telma Hjaltalín með boltann í leiknum gegn FH í fyrrakvöld.
Telma Hjaltalín með boltann í leiknum gegn FH í fyrrakvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undanfarin tvö ár hafa verið knattspyrnukonunni Telmu Hjaltalín Þrastardóttur erfið. Hún sleit krossband í hné árið 2016 og var rétt komin af stað þegar krossband slitnaði á ný í apríllok í fyrra.

Með elju og dugnaði mætti Telma galvösk á völlinn reynslunni ríkari í byrjun sumars. Hún hefur leikið fjóra leiki með Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna á leiktíðinni og tekið þátt í einum leik í Mjólkurbikarnum. Telma minnti hressilega á sig í fyrrakvöld og skoraði fjögur mörk fyrir Stjörnuna í 6:2-sigri á FH. Reyndar fékk hún högg á annað lærið í þann mund sem hún skoraði fjórða markið og var borin af leikvelli í kjölfarið.

„Ég er betri í dag en í gær,“ sagði Telma þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar. „Ég fékk högg á lærið og því fylgdi blæðing inn á vöðvann og tilheyrandi mar. Þetta er sem betur fer ekki eins alvarlegt og í fyrstu var talið. Ég reikna ekki með að verða lengi frá keppni en það skýrist betur á næstu dögum,“ sagði Telma sem hefur fengið nóg af meiðslum í bili eftir undangengin tvö ár.

„Mér er eiginlega alveg sama svo lengi sem krossbandið heldur. Núna er ég verkjalaus og get gengið um allt án erfiðleika,“ sagði Telma sem viðurkennir að það hafi reynt mjög á sig, jafnt líkamlega sem andlega, að ganga í gegnum árin tvö vegna krossbandsslitanna.

„Síðustu tvö ár hafa verið sannkölluð rússíbanareið hjá mér. Sem betur fer hef ég haft mjög gott fólk á bak við mig sem hefur stutt mig í gegnum súrt og sætt og hvatt mig til dáða. Það var geggjuð tilfinning að koma út á völlinn á nýjan leik í vor.“

Sjá allt viðtalið við Telmu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem einnig er að finna úrvalslið 8. umferðar og stöðuna í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert