FH-ingar komnir í þriðja sætið

Steven Lennon umkringdur Grindvíkingum á Kaplakrikavelli í dag.
Steven Lennon umkringdur Grindvíkingum á Kaplakrikavelli í dag. mbl.is/Eggert

FH-ingar lyftu sér upp í þriðja sæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag eftir 2:1 sigur á heimavelli gegn Grindvíkingum í fyrsta leik 12. umferðar deildarinnar þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft.

Þetta var aðeins þriðji sigur FH-inga á heimavelli í sumar og með honum komust FH-ingar upp fyrir Grindavík og Breiðablik og sitja nú í þriðja sætinu, sex stigum á eftir Íslandsmeisturum Vals sem tróna í toppsætinu og eiga leik til góða.

Eftir ansi rólegan fyrsta hálftíma leiksins dró til tíðinda á 32. mínútu leiksins. Brynjar Ásgeir Guðmundsson, uppalinn leikmaður í FH, braut þá klaufalega á Atla Guðnasyni sem var að komast í upplagt marktækifæri. Ívar Orri Kristjánsson dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu og rak Brynjar Ásgeir af velli og Steven Lennon skoraði að vanda af miku öryggi úr vítaspyrnunni, hans áttunda mark í deildinni í sumar.

Seinni hálfleikurinn var ekki kominn nema tvær mínútur áleiðis þegar Pétur Viðarsson, miðvörður FH-inga, var sendur í bað. Hann braut þá á René Joensen sem var að sleppa einn í gegn. Þar með var orðið jafnt í liðum og Grindvíkingar sáu eflaust tækifæri til að koma sér inn í leikinn en þeim var ekki að ósk sinni. Færeyski landsliðsmaðurinn Brandur Olsen bætti við öðru marki FH-inga á 57. mínútu eftir góðan undirbúning Atla Guðnasonar, fimmta mark Færeyingsins í sumar sem hefur spilað vel með Hafnarfjarðarliðinu á leiktíðinni.

Grindvíkingar lögðu ekki árar í bát og á 76. mínútu minnkaði Rénato Gomes muninn fyrir Suðurnesjaliðið þegar hann fékk góða sendingu inn á teiginn frá varamanninum Sitó. Grindvíkingar sóttu nokkuð stíft síðasta stundarfjórðung leiksins en þeim tókst ekki að jafna metin og urðu að sætta sig við annað tapið í röð en eftir tvo ósigra í röð fögnuðu FH-ingar vel og innilega í leikslok.

FH 2:1 Grindavík opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 3 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert