Vongóður um að Heimir verði áfram

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, er vongóður um að Heimir Hallgrímsson haldi áfram starfi sínu sem þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Samningur Heimis við KSÍ rann út eftir að Ísland lauk keppni á HM í Rússlandi og hefur Heimir legið undir feldi frá því hann kom heim þar sem hann hefur íhugað næstu skref sín á þjálfaraferlinum.

„Við erum að fara að ræða saman með það fyrir augum að Heimir verði þjálfari landsliðsins í tvö ár til viðbótar. Ég er bjartsýnn á að við náum saman. Það er vilji af beggja hálfu að taka málið áfram og vonandi náum við að klára þessi mál fljótt,“ sagði Guðni í samtali við Morgunblaðið í gær. Guðni er staddur í Moskvu í Rússlandi en hann er fulltrúi evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, í aganefnd FIFA á heimsmeistaramótinu eftir að Ísland féll úr leik.

Það eru liðin tæp sjö ár síðan Heimir kom til starfa hjá KSÍ. Fyrstu tvö árin var hann aðstoðarþjálfari Svíans Lars Lagerbäck, var síðan í hálft þriðja ár sem aðalþjálfari samhliða Lagerbäck og undanfarin tvö ár hefur hann verið einn við stjórnvölinn með Helga Kolviðsson sem sinn aðstoðarmann. Undir stjórn Heimis tryggði íslenska landsliðið sér farseðilinn á HM í fyrsta skipti eftir að hafa unnið sinn riðil í undankeppninni á glæsilegan hátt.

Árangur Heimis með íslenska landsliðið hefur vakið verðskuldaða athygli út um víða veröld og hefur gert hann eftirsóttan en nú hillir undir að tannlæknirinn skemmtilegi úr Eyjum geri nýjan samning við KSÍ sem ætti að gleðja alla landsmenn. Sjálfur sagði Heimir í viðtölum við fréttamenn á HM að hann væri í besta starfi í heimi sem þjálfari íslenska landsliðsins.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert