Betra liðið vann í dag

Ólafur Þór Guðbjörnsson var ósáttur með að tala en viðurkennir …
Ólafur Þór Guðbjörnsson var ósáttur með að tala en viðurkennir að betra liðið hafi unnið í kvöld. mbl.is/Eggert

„Það er eins og alltaf þegar maður tapar leik, það eru vonbrigði og það hefur verið of mikið um þau í sumar," sagði Ólafur Guðbjörnsson þjálfari Stjörnunnar, eftir 3:1-tap gegn Þór/KA í 9. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Akureyri í kvöld. „Við töpuðum fyrir betra liði hér í dag og þetta var sanngjarn sigur að þeirra hálfu. Við verðum bara að viðurkenna það.“

Liðið fékk á sig tvö mörk með stuttu millibili í seinni hálfleik sem gerði út um leikinn.

„Þessi mörk voru að ódýrari gerðinni af okkar hálfu en að sama skapi getur maður sagt vel klárað hjá þeim. Sá kafli var dýr, við náðum að setja smá pressu á þær í lokinn en þá voru þær kannski orðnar rólegar að fara að sigla þessu heim. Þetta var bara ekki nógu góður leikur hjá okkur.“

Liðið var án Katrínar Ásbjörnsdóttur í dag og Harpa Þorsteinsdóttir meiddist eftir aðeins 8. mínútur. Aðspurður hvort liðið saknaði þeirra í dag sagði Ólafur

„Auðvitað en þannig er fótboltinn þú verður að hafa hóp í það að spila ef þú ætlar að vera í toppbaráttunni. Við náðum ekki að standa undir því í dag. 

Nú styttist í að glugginn opni en stendur til að Stjörnuliðið styrki sig?

„Mér sýnist formaður kvennaráðs fyrir aftan þig segja nei.“ Sagði Ólafur léttur í bragði. „Við fáum einn leikmann í glugganum. Sigrún Ella sem er frábær leikmaður kemur aftur frá Ítalíu og hún kemur 15.júlí. Að öðru leyti ætlum við ekki að fara að sækja neitt. Við erum með fínan hóp og treystum honum," sagði Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert