Lífsnauðsynlegur sigur

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, var ánægður með að liðið sé …
Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, var ánægður með að liðið sé loksins komið á sigurbraut. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann 1:0-sigur á Selfossi í kvöld þegar liðin áttust við í 9. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Vestmanneyjum. Sigurinn var sterkur hjá Eyjakonum sem hafa verið í veseni síðustu vikur, þá aðallega vegna meiðsla lykilleikmanna liðsins. Sigríður Lára Garðarsdóttir gerði eina mark leiksins með skalla af stuttu færi eftir bakfallsspyrnu frá Shameeku Fishley. Ian Jeffs, þjálfari liðsins, var sáttur með sigurinn og þann kraft sem leikmenn liðsins lögðu í leikinn. 

„Mér fannst við sterkari í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik settu þær mikla pressu á okkur og það var rosalega erfitt. Það sást á okkar liði að við vorum að fara í gegnum erfiðan kafla, það vantar sjálfstraust í liðið. Ég var gríðarlega ánægður með baráttuna og karakterinn sem liðið sýndi í seinni hálfleik, til að klára þetta og halda hreinu. Það er eitthvað sem við erum ekki búnar að gera nógu vel í sumar, margir jákvæðir punktar.“

Þetta var lífsnauðsynlegur sigur fyrir Eyjakonur en liðið hefði sogast niður í fallbaráttu með tapi.

„Þetta var mikilvægur leikur og þrjú stig sem við vorum tilbúnar að berjast fyrir og gefa allt í. Við vorum grimmar varnarlega og héldum skipulagi vel, við spiluðum þéttan og góðan varnarleik sem lið sem við höfum ekki gert nógu oft í sumar,“ síðustu vikur hafa verið mjög erfiðar fyrir ÍBV og hefur liðið misst marga leikmenn í meiðsli.

„Kristín (Erna Sigurlásdóttir) er að taka sér smá pásu núna, hún þarf að styrkja hnén til að koma til baka. Hún er búin að spila mikið meidd í sumar og á mikið hrós skilið fyrir það og hefur reynt allt sem hún getur. Þetta hefur tekið sinn toll og þarf að hvíla núna, Katie (Kraeutner) og Caroline (van Slambrouck) eru frá og ekki ljóst hvenær þær koma til baka. Díana Helga, Margrét Íris og Inga eru líka meiddar og það kemur í ljós hvenær þær koma til baka á næstu dögum.“

Emily Armstrong var sett á bekkinn í síðasta leik gegn HK/Víkingi og óreynd Guðný Geirsdóttir var sett í markið í staðinn, var það einhver refsing fyrir Emily eftir mistök í síðustu leikjum?

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið refsing, ég tók ákvörðun með þjálfarateyminu að við vildum hvíla hana í einn leik. Við vorum búnir að ræða við Emily um hvað við vildum fá frá henni og hún sýndi það í dag fannst mér, hún átti mjög góðan leik og var örugg í öllum ákvörðunum sem hún tók. Ég held að vörninni og liðinu hafi fundist það líka, það virtist vera ákveðið öryggi í okkar varnarleik,“ sagði Ian Jeffs en í lok viðtalsins sagði hann að Englendingar væru að fara að klára Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og að fótboltinn væri að koma heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert