HK/Víkingur festi KR á botninum

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Með 3:1 sigri í Frostaskjólinu, þar sem Margrét Sif Magnúsdóttir skoraði tvö, tókst nýliðum deildarinnar HK/Víkingum af lyfta sér upp um tvö sæti og taka 6. sætið en festu KR um leið á botni deildarinnar þegar fram fór síðasti leikur 9. umferðar efstu deildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar.

Heldur voru Vesturbæingar ákveðnari í byrjun og aðeins voru liðnar tíu mínútur af leiknum þegar dró til tíðinda er Katrín Ómarsdóttir skallaði úr miðjum vítateig inn aukaspyrnu Hugrúnar Lilju Ólafsdóttur. Það liðu ekki nema tvær mínútur fram að næsta marki þegar Hildur Antonsdóttir skallaði af markteigslínu hornspyrnu Stefaníu Ástu Tryggvadóttur. Þá tók við barátta en því minna af færum, það besta átti Karólína Jack fyrir HK/Víkinga á 41. mínútu þegar hún sýndi flotta takta rétt utan teigs en skotið fór beint á Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR.

Enn liðu tíu mínútur af síðari hálfleik þegar næsta mark kom er Margrét Sif Magnúsdóttir þrumaði af vítateigslínunni yfir markvörð KR, sem réð ekki við fast skotið.  Aðeins tveimur mínútum síðar bætti Margrét Sif um betur þegar hún nýtti sér klaufagang í vörn KR, komst inn í sendingu og lék á markvörð KR áður en hún skoraði í autt markið. Undir lokin sóttu KR-ingar af krafti og áttu nokkur góð skot á mark gestanna en lið HK/Víkings stóð af sér storminn.

Með sigrinum lyfti HK/Víkingur sér upp um tvö sæti, upp fyrir Grindavík og Selfoss.  Er nú með tíu stig en KR er eftir sem áður á botni deildarinnar með 3 stig. 

KR 1:3 HK/Víkingur opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert