„Á Akureyrarvelli verður VAR-herbergi“

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var að vonum ánægður eftir að hans menn unnu 2:1-sigur á Grindavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með sigurmarki í uppbótartíma á Grindavíkurvelli í kvöld. Var þetta fyrsti útisigur KA í sumar.

„Þetta var hörkuleikur milli tveggja góðra liða sem þekkjast vel og við náum að skora mark á síðustu stundu og ná fyrsta sigrinum á útivelli í sumar. Ég er gríðarleg ánægður með mína stráka.“

Ótrúlegt atvik átti sér stað í upphafi síðari hálfleiks þegar KA-menn virtust skora löglegt mark. Töluvert eftir fagnaðarlæti þeirra, í þann mund sem Grindvíkingar ætluðu að fara taka miðju, var markið skyndilega dæmt af vegna rangstöðu. Tufegdzic, sem og öllum norðanmönnum, var ekki skemmt yfir þessari uppákomu sem kostaði liðið þó betur fer ekki stigin þrjú.

„Ég get ekki útskýrt hvað gerðist þarna. Það eina sem ég lofa ykkur er að á Akureyrarvelli í næsta leik verður klárt VAR-herbergi með fimm sjónvörp og þar verður allt klárt.“

Besta leiðin til að svara gagnrýninni

KA hefur nú unnið tvo leiki í röð og er það í fyrsta sinn sem það gerist í sumar.

„Það hefur verið stígandi í okkar leik síðustu 5-6 vikur og núna tekst okkur að tengja saman þrenn góð úrslit. Það er mikilvægt fyrir restina af mótinu, ef þú nærð að tengja sigra ferðu upp töfluna og við viljum vera í efri hlutanum.“

Félagsskiptaglugginn opnar á sunnudaginn kemur og hefur eitthvað verið rætt um hvort KA vanti ekki liðsstyrk í framlínunni. Það var hins vegar ungur sóknarmaður, Ýmir Már Geirsson, sem kom inn á og skoraði sigurmark dagsins.

„Vantar breidd eða ekki, ég er ánægður með þann hóp sem ég hef. Strákarnir hafa lagt mikið á sig og þetta er besta leiðin til að svara þeirri gagnrýni sem við fengum í byrjun móts,“ sagði Tufegdzic að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert