Ekki einu sinni aukaspyrna á Englandi

Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur.
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Við spilum að mestu leyti þokkalega en erum að klikka á grundvallaratriðum, þú hefur einfaldlega ekki efni á því í efstu deild,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, eftir 2:1-tap á heimavelli gegn KA í Pepsi-deildinni í dag.

Gunnar hrósaði gestunum fyrir mörkin sem þeir skora en segist sjá eftir þeim færum sem fóru forgörðum hjá Grindavík í dag.

„Ég ætla ekki að taka af þeim að þeir klára þessi færi mjög vel. Aftur á móti erum við að klikka á þremur dauðafærum þar sem við hefðum einfaldlega getað slökkt í þessum leik. Þetta var þriðji tapleikurinn í röð og við erum augljóslega að gera eitthvað vitlaust. Við þurfum að núllstilla okkur og fara í smá naflaskoðun.“

Náum ekki að láta kné fylgja kviði

Umdeilt atvik átti sér stað í byrjun síðari hálfleiks þegar KA virtist skora löglegt mark sem var síðar dæmt af eftir mikla rekistefnu dómara leiksins. Grindvíkingum tókst þó ekki að spýta í lófana við það og náðu gestirnir að lokum sigurmarkinu í uppbótartíma.

„Það var skrifað í skýin að þeir myndu klára þennan leik, hugsaði ég. Ég veit ekki hvernig þetta kom ykkur fyrir sjónir, ég hef ekki hugmynd um hvað gerðist en ég vonaði að þetta myndi veita okkur innblástur. Svo náum við ekki að láta kné fylgja kviði.“

Marinó Axel Helgason fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í seinni hálfleik eftir hörku tæklingu en Gunnari fannst dómurinn strangur.

„Mér fannst hann fara heiðarlega inn í þetta návígi, hann tekur auðvitað manninn en boltann líka. Á Englandi hefði þetta ekki einu sinni verið aukaspyrna.“

Þetta er bara eins og lífið

Grindavík hefur nú tapað þremur í röð, er liðinu nokkuð að fatast flugið?

„Nei, nei. Það kemur fyrir alla að fara upp og svo niður, þetta er bara eins og lífið. Við erum ekki að missa svefn yfir þessu heldur setjumst við niður við teikniborðið og skoðum hvað er að fara úrskeiðis,“ sagði hann að lokum.

mbl.is