„Evrópukeppnin kryddar sumarið“

Baldur Sigurðsson
Baldur Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Garðabænum klukkan 20 mætast Stjarnan og Nõmme Kalju FC frá Eistlandi. Eistarnir eru sem stendur í efsta sæti eistnesku úrvalsdeildarinnar og munu að öllum líkindum veita Stjörnunni mikla keppni um hvort liðið mætir FC Kaupmannahöfn í næstu umferð.

Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa kynnt sér liðið lítillega.

„Þetta er ágætis lið. Þeir eru náttúrlega efstir í deildinni sinni en þetta er skrýtin deild og það er erfitt að gera sér grein fyrir hvaða mark er hægt að taka á leikjum þar sem þeir eru að vinna 8:3. En svo fer maður að skoða Evrópusöguna þeirra og þá sér maður að þeir eru að slá lið út sem eru býsna öflug eins og HJK Helsinki sem ég tapaði nú eftirminnilega fyrir með KR. Þannig að þeir eru með hörkulið,“ sagði Baldur.

Að fá á sig mörk á heimavelli getur reynst dýrkeypt í útsláttarleikjum. Spurður hvort Stjarnan muni fara varfærnislega inn í leikinn með það fyrir augum að fá ekki á sig mark sagði Baldur að þeir myndu mæta inn í leikinn reynslunni ríkari frá því í fyrra: „Í fyrra þegar við mættum Shamrock Rovers frá Írlandi þá töpuðum við 1:0 á heimavelli. Það var þungur róður að fara í síðari leikinn með útivallarmark í farteskinu.

Það er oft þannig í þessari Evrópukeppni að það er mikilvægt að ná góðum úrslitum á heimavelli því það er oft mikill munur á því hvernig liðin spila á heimavelli og á útivelli. Að sjálfsögðu leggjum við ofuráherslu á að fá ekki á okkur mark en á sama tíma reynum við að ná í góð úrslit því að í fyrsta lagi viljum við ekki tapa en við viljum líka nýta heimavöllinn og ná að skora og nýta okkur sjálfstraustið sem við höfum. Við höfum verið að skora mikið í deildinni og vonandi getum við tekið það sjálfstraust inn í Evrópuleikina,“ sagði Baldur.

Sjá allt viðtalið við Baldur í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »