HK-ingar af öryggi aftur á toppinn

Bjarni Gunnarsson skoraði tvö fyrir HK.
Bjarni Gunnarsson skoraði tvö fyrir HK. mbl.is/Valgarður Gíslason

HK skellti sér upp fyrir ÍA og á toppinn á Inkasso-deild karla í fótbolta með öruggum 3:0-sigri á Haukum í Kórnum í kvöld. Brynjar Jónasson kom HK yfir í fyrri hálfleik og Bjarni Gunnarsson gulltryggði sigur HK-inga með tveimur mörkum í síðari hálfleik.

Víkingur frá Ólafsvík vann 2:1-heimasigur á Fram og er nú með 23 stig, eins og ÍA sem er í öðru sæti. Kwame Quee og Kristinn Magnús Pétursson komu Víkingi í 2:0 í fyrri hálfleik. Staða Framara versnaði á 76. mínútu er Alex Freyr Elísson fékk beint rautt spjald. Tíu leikmenn Fram minnkuðu hins vegar muninn með marki Guðmundar Magnússonar úr víti, en nær komust gestirnir ekki. 

Selfoss fjarlægðist botnsætin með 4:1-sigri á Njarðvík á heimavelli. Kristófer Páll Viðarsson, Gilles Ondo og Ivan Gutierrez komu Selfyssingum í 3:0. Magnús Þór Magnússon minnkaði muninn á 67. mínútu og fékk Andri Fannar Freysson tækifæri til að skora annað mark fyrir Njarðvík en hann brenndi af úr víti. Það nýttu Selfyssingar sér og Kenan Turudija skoraði fjórða markið í blálokin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert