„Við drógum lærdóm af leiknum í fyrra“

Brynjar Gauti Guðjónsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson í baráttu við ...
Brynjar Gauti Guðjónsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson í baráttu við mark Nömme Kalju í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég lofa, þessi bolti fór í mig, þetta var klárt mitt mark,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði og markaskorari Stjörnunnar í 3:0 sigri liðsins á Nömme Kalju í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Baldur skallaði aukaspyrnu Hilmars Árna í netið í upphafi seinni hálfleiks. 

„Ég er gríðarlega ánægður að vinna þetta lið 3:0.  Við vissum ekki nákvæmlega hversu sterkir þeir væru fyrir leik. Það er svolítið skrýtin deild sem þeir eru í. Það eru 2-3 mjög sterk lið í deildinni þeirra og þeir eru sjálfir með mjög gott lið. Þeir eru með hávaxið lið, 3-4 leikmenn sem eru höfðinu hærri en leikmennirnir okkar en samt náðum við að verjast föstu leikatriðunum þeirra.“

Þrátt fyrir að Stjörnumenn hafi ekki vitað mikið um styrk Nömme Kalju, ákvað liðið að byrja af krafti og setja pressu á Eistlendingana.

„Það var lærdómur sem við drógum frá í fyrra þar sem við vorum svolítið ragir á heimavelli í einvíginu gegn Shamrock Rovers. Við drógum lærdóm af því og fórum ekki úr okkar elementi. Við höfum byrjað leikina okkar í sumar á því að pressa og það tókst. Mér fannst við vera með tak á leiknum frá fyrstu mínútu.“

„Mér líst vel á einvígið úti. Það er alltaf gaman að fara út og við höfum sett þá pressu á okkur að fara út og klára þetta einvígi. En maður er alltaf með smá hnút í maganum þegar maður fer í svona útileiki en vonandi gerist ekkert óvænt og við getum bara siglt þessu einvígi heim,“ sagði Baldur að lokum.

Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar.
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar. Valgarður Gíslason
mbl.is