Þriðji sigur Víkinga í röð

Víkingar fagna fyrsta marki leiksins.
Víkingar fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Hari

Víkingur Reykjavík vann sinn þriðja sigur í röð í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld er botnlið Keflavíkur kom í heimsókn. Arnþór Ingi Kristinsson skoraði sigurmarkið strax á fjórðu mínútu.

Leikurinn fór mjög fjörlega af stað. Bæði lið skiptust á að sækja af krafti. Á fjórðu mínútu átti Víkingur laglega sókn upp vinstri kantinn sem endaði með fyrirgjöf frá Jorgen Richardsen sem endaði á Arnþóri Inga Kristinssyni sem stóð einn og óvaldaður inn í teig Keflvíkinga og lagði boltann laglega í fjærhornið.

Það virkaði eins og það væri mikill skjálfti í Keflvíkingum eftir markið og Víkingur var nálægt því að skora í tvígang. Hægt og rólega náði Keflavík þó betri tökum á leik sínum og áttu nokkra ágætis samspilskafla án þess þó að skapa sér góð færi.

Seinni hálfleikur var ekki mikið fyrir augað. Víkingar voru sáttir með sinn hlut og spiluðu öruggt. Keflavík náði ekki sama takt í sitt spil og var aldrei nálægt því að jafna þennan leik. Spilamennska Víkinga var ekki góð þrátt fyrir sigurinn og hefði sennilega tapað fyrir flestum öðrum liðum en Keflavík hefðu þeir spilað svona.

Undir lok leiksins fékk Davíð Örn sitt annað gula spjald fyrir orðaskipti við dómara sem verður að teljast klaufalegt miðað við að komið var í uppbótartíma og Keflvíkingar ekki líklegir til að jafna metin.

Víkingur fór upp í 18 stig og upp í fimmta sæti með sigrinum en Keflavík er enn á botninum án sigurs. 

Víkingur R. 1:0 Keflavík opna loka
90. mín. Leik lokið 1-0 sigur Víkinga í vægast sagt leiðinlegum og illa spiluðum leik
mbl.is