„Víkingur er alltaf Víkingur í Víkinni“

Arnþór Ingi Kristinsson skoraði eina mark leiksins á fjórðu mínútu.
Arnþór Ingi Kristinsson skoraði eina mark leiksins á fjórðu mínútu. Haraldur Jónasson/Hari

Víkingur tryggði sér þrjú góð stig í kvöld þegar liðið sigraði Keflavík 1:0 í Pepsí-deild karla í knattspyrnu. 

Arnþór Ingi Kristinsson skoraði eina mark leiksins og var öflugur á miðjusvæðinu fyrir Víking. Í samtali við mbl.is sagðist Arnþór hafa verið sáttur með hvernig leikurinn byrjaði: „Við byrjum leikinn mjög vel og gott að ná marki snemma inn. Svo höldum við bara í þetta mark. Sígur svolítið þreyta á okkur en við vorum alveg vissir að við vorum ekki að fara að skora. Víkingur er alltaf Víkingur í Víkinni.“

Sigur Víkinga, sem er sá þriðji í röð, kemur liðinu upp í 5. sæti aðeins einu stigi á eftir FH og Breiðablik sem eru í 3. og 4. sæti deildarinnar. Arnþóri leist vel á framhaldið í deildinni: „Síðustu ár höfum við verið svolítið upp og niður. Um leið og við fáum séns að gera eitthvað klúðrum við því. En núna eru komnir fjórir leikir þar sem við náum í stig. Komnir í 18. Þannig mér lýst vel á þetta og við ætlum að fylgja þessu á eftir.“

Stefnt var að því að landsliðmaðurinn Kári Árnason myndi spila sinn fyrsta leik með Víking í kvöld eftir HM en ekki varð að því. Arnþór sagðist að hann hefði verið tæpur og ákveðið hafi verið að taka enga áhættu með hann. Spurður út í innkomu Kára í Víkingsliðið sagðist Arnþór að það væri „geggjað“ að fá hann í hópinn: „Maður finnur það strax á æfingum að tempóið verður betra og menn vilja sýna sig svolítið fyrir svona stjörnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert