Gummi búinn að grenja í mér alla vikuna

Oliver Sigurjónsson skoraði sigurmarkið.
Oliver Sigurjónsson skoraði sigurmarkið. mbl.is/Árni Sæberg

Oliver Sigurjónsson var hetja Breiðabliks í 2:1-sigri á Fjölni á heimavelli í 12. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld. Hann skoraði sigurmark liðsins beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma. 

„Ég er rosalega ánægður og það er gott að ná í þrjú stig þótt þetta hafi verið aðeins of tæpt að mínu mati og við hleypum þeim inn í leikinn, ég er hins vegar rosalega ánægður með þrjú stig. Það skiptir engu máli hver skorar, við vinnum leikina sem heild.“

„Ég sagði Dabba að vera aðeins lengur á boltanum og bakka svo því þá ætlaði ég að koma og skjóta. Ég var búinn að ákveða að setja boltann í vegginn en Gummi Steinars er búinn að grenja í mér alla vikuna og segja mér að setja hann í markmannshornið og ég gerði það fyrir Gumma Steinars og svo hitti ég hann frábærlega.“

Breiðablik var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Fjölnismenn urðu betri eftir því sem leið á leikinn og skoruðu verðskuldað jöfnunarmark. 

„Við vorum frábærir í fyrri hálfleik en við dettum niður í seinni hálfleik sem er ekki nógu gott. Við hleypum þeim inn í leikinn en þetta eru þrjú stig og við rifum okkur upp eftir að jöfnunarmarkið kom.“

Danski framherjinn Thomas Mikkelsen spilaði sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik í kvöld og skoraði fyrra mark liðsins. 

„Hann var mjög góður, hélt boltanum vel og var duglegur. Hann var þreyttur undir lokin, það er eðlilegt þar sem það er langt síðan hann spilaði. Það var frábært að hann skoraði og nú erum við með tvo virkilega góða framherja og þetta lítur vel út.“

Breiðablik er þremur stigum frá toppliðum Vals og Stjörnunnar og Oliver segir Breiðablik ætla að verða í toppbaráttu allt til loka. 

„Við erum í séns og við erum með nógu gott lið til að vera þarna og við ætlum okkur að vera áfram þarna,“ sagði Oliver að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert