Rúnar vonast eftir styrkingu

Rúnar Kristinsson var ánægður með sigur sinna manna.
Rúnar Kristinsson var ánægður með sigur sinna manna. Eggert Jóhannesson

Rúnar Kristinsson þjálfari KR var kampakátur eftir 5:2 sigur sinna manna á Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu:

„Við vorum frábærir í byrjun. Spiluðum mjög vel. Ógnuðum inn fyrir þá og spiluðum stutt. Náðum að troða inn tveimur mörkum mjög snemma. Vorum að spila virkilega vel í fyrri hálfleik, 4:1. Ég segi ekki að það hafi verið síst of stórt en réttmætt held ég.“

Morten Beck meiddist í byrjun seinni hálfleiks og virtist hann vera mjög kvalinn. Rúnar sagði að um hnémeiðsli hafi verið að ræða: „Hann fékk slink á hnéð. Kenndi sér mikils meins. Ég veit ekki á þessari stundu hvað það er. Hvort að þetta sé tognun eða eitthvað alvarlegra. Vonandi ekki því hann er frábær leikmaður og hefur spilað vel fyrir okkur og spilaði vel í þessum leik.

Mál Björgvins Stefánssonar hefur verið talsvert í fjölmiðlum undanfarna daga en KR sendi frá sér yfirlýsingu á dögunum þar sem kom fram að Björgvin hafi misnotað róandi lyf: Rúnar sagði að KR stæði heils hugar við bakið á honum: „Björgvin er bara að fara að vinna í sínum málum í þessari viku og við munum styðja hann í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Við erum að reyna að hjálpa honum. Hann hefur tekið þá ákvörðun að leita sér hjálpar og það ferli hefst síðar í þessari viku. Og þá nær hann sér vonandi á strik, getur byrjað að æfa með okkur og spilað vonandi áður en þessu Íslandsmóti lýkur.“

Það var hiti í Rúnari og þjálfarateymi hans í seinni hálfleik eftir að Þóroddur Hjaltalín dæmdi ekki þegar brotið var á Aroni Bjarka Jósepssyni: „Þetta var púra aukaspyrna sem þeir sleppa. Finnst mér. Maður hefur ekki alltaf rétt fyrir sér en mér fannst það alveg galið að sleppa því. Svona er þetta. Hann er stuttur í manni þráðurinn stundum en maður er fljótur að róa sig. Það gerist stundum að maður missi sig. Fyrsta skipti í sumar. Ég er að reyna að halda aftur að mér og það er ekki gott þegar þjálfarinn sem á að vera smá fyrirmynd er að æsa upp í mönnum. Ég bið Þórodd bara velvirðingar á því að ég hafi æst mig fullmikið.“

Leikmannaglugginn opnaði 15. júlí. Spurður hvort KR ætlaði að fá einhverja leikmenn í glugganum sagði Rúnar einhverjar hreyfingar vera í gangi: „Við erum að skoða ýmis mál. Þetta tekur allt sinn tíma og við erum ekki komnir með neitt fast í hendi enn þá. Það eru nokkrar þreifingar í gangi en ekkert sem þolir dagsbirtuna núna. En vonandi fáum við einhverja styrkingu í þessum glugga.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert