Hvernig verða svona fréttir til?

Helgi Kolviðsson á æfingu íslenska landsliðsins í Rússlandi.
Helgi Kolviðsson á æfingu íslenska landsliðsins í Rússlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég botna ekkert í því hvernig svona fréttir verða til,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is fyrir stundu.

Fyrr í kvöld birti indverski miðillinn Khel Now frétt þess efnis að Helgi væri að taka við stjórn Pune City, sem leikur í indversku úrvalsdeildinni.

„Ég hef aldrei heyrt nafnið á þessu félagi, hvað þá meira, og veit ekki til þess að neinir sem eru í tengslum við mig hafi verið í sambandi við lið í þessum heimshluta. Ég veit alla vega ekki til þess að neinn hafi komið mínu nafni á framfæri þarna,“ sagði Helgi sem kvaðst ekki hugsa um neitt annað en íslenska landsliðið í bili.

„Staðan þar er náttúrulega óljós eins og er, þar sem Heimir er búinn að tilkynna um ákvörðun sína. Ég bíð eins og aðrir eftir því hvað KSÍ vill gera en minn hugur er alfarið hjá landsliðinu og framhaldinu hjá því, enda er mjög stutt í næstu verkefni liðsins. Við erum einmitt að fara að funda með KSÍ á morgun til að ganga frá öllu varðandi HM,“ sagði Helgi.

Aðspurður hvort hann væri tilbúinn til að starfa áfram í þjálfarateymi landsliðsins, sem þjálfari eða aðstoðarþjálfari, svaraði Helgi. „Já, ég er til í allt.“

mbl.is