Erfitt að kveðja á þessum tímapunkti

Selma Sól Magnúsdóttir reyndist hetja Blika í kvöld en hún …
Selma Sól Magnúsdóttir reyndist hetja Blika í kvöld en hún skoraði sigurmark Breiðabliks í 1:0 sigri á Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Eggert

„Það er alltaf gaman að skora og það er ekki verra þegar að það reynist sigurmarkið í leiknum. Það er líka alltaf gaman að vinna 1:0, það eru sætustu sigrarnir,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins á Stjörnunni í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við byrjuðum ágætlega og við vorum klárlega sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Þær voru mikið að reyna langa bolta fram völlinn sem við gerðum vel í að leysa. Við áttum von á því að þær myndu spila svona í dag og það var því lítið sem kom okkar á óvart í þeirra leik. Í seinni hálfleik ná þær aðeins að vinna sig inn í leikinn og síðustu mínúturnar lágu þær aðeins á okkur en við náðum að halda þetta út og mér fannst sigurinn sanngjarn. Okkur er alveg sama hvernig við vinnum, á meðan við vinnum og höldum hreinu og það eru þrjú stigin sem telja.“

Selma Sól er á leiðinni út í nám til Bandaríkjanna og mun því ekki klára tímabilið með Blikum. Hún mun spila bikarleikinn gegn Val í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og síðasti deildarleikur hennar verður gegn Grindavík á útivelli.

„Það er mjög leiðinlegt og erfitt að þurfa kveðja liðið á þessum tímapunkti en þetta er ákvörðun sem ég tók og ég þarf að standa með henni. Ég mun reyna að gera mitt allra besta fyrir liðið, á meðan mín nýtur enn þá við. Ég hef spilað með Breiðabliki síðan að ég var fjögurra ára og ég mun fylgjast vel með stelpunum eftir að ég er farinn út. Ég verð dugleg að hvetja þær áfram og vonandi fara þær alla leið og klára þetta í haust,“ sagði Selma Sól að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert