Fann smell þegar leikmaðurinn lenti á mér

Fran Marmolejo meiddist á öxl en kláraði leikinn.
Fran Marmolejo meiddist á öxl en kláraði leikinn. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Mér líður rosalega vel eins og öllu liðinu,“ sagði Spánverjinn Fran Marmolejo, markmaður Víkings Ó., í samtali við mbl.is eftir að liðið sló Víking R. út í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld. 

Marmolejo meiddist á öxl í fyrri hálfleik, en þar sem Víkingur Ó. var ekki með varamarkmann kláraði hann leikinn. 

„Þetta var mjög erfiður leikur og meiðslin í öxlinni minni hjálpuðu ekki til. Það sást hins vegar eftir leik hvað við erum ánægðir með þetta. Við fundum að þeir voru í deild fyrir ofan og við þurftum að láta finna fyrir okkur og að lokum náðum við sigrinum.“

„Ég er enn þá með verk, ég fann smell þegar leikmaðurinn lenti á mér. Nú læt ég kíkja á öxlina og við sjáum til hvað kemur úr því og hvort ég verði tilbúinn í næsta leik. Ég fann mikla verki í hvert skipti sem ég þurfti að gera eitthvað í leiknum. Ég er eini markmaðurinn eins og er og ég er ekki viss hvort við náum í annan markmann ef ég er meiddur.“

Marmolejo kann vel við sig í Ólafsvík og er hann ánægður með hversu rólegur bærinn er. 

„Ég kann vel við mig í Ólafsvík, ég er vanari að það sé meira um að vera í kringum mig. Í Ólafsvík er loftið tært, ég get slappað af og hugsað vel um mig. Ég er ánægður með alla í bænum,“ sagði Fran Marmolejo að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert