Verðum að klára dæmið á heimavelli

Pétur Viðarsson er spenntur að mæta Lahti á morgun.
Pétur Viðarsson er spenntur að mæta Lahti á morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður mjög vel, það er gott að æfa í sól, við höfum ekki fengið mörg tækifæri til þess í sumar,“ sagði Pétur Viðarsson, miðvörður FH, í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í gær. 

FH æfði þá fyrir síðari leikinn á móti Lahti í forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta sem fram fer annað kvöld. FH vann fyrri leikinn 3:0 og stendur því ansi vel að vígi í einvíginu. 

„Ég komst að því eftir leik að þetta lið hafði aldrei tapað á heimavelli í Evrópukeppni og ég bjóst alls ekki við 3:0-sigri, en við tökum því auðvitað. Þetta var ótrúlega góður og verðskuldaður sigur og við verðum að klára dæmið á heimavelli.“

Hann býst við að finnska liðið komi sterkara til leiks í síðari leiknum. 

„Þeir þurfa að taka sénsa á meðan við þurfum ekki að fara úr okkar skipulagi. Við viljum halda í okkar hlut og spila okkar leik eins og við gerðum úti, ef við gerum það þá förum við áfram.“

„Þetta var baráttulið með nokkra ágæta leikmenn. Þeir voru með fljóta kantmenn og sterka framherja. Í vörninni voru þeir hins vegar óskipulagðir, þetta var fínt lið en við vorum töluvert betri,“ sagði Pétur Viðarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert