Víkingur Ó. í undanúrslit í annað skipti

Alexander Helgi Sigurðarson sækir að Arnþór Inga Kristinssyni í kvöld.
Alexander Helgi Sigurðarson sækir að Arnþór Inga Kristinssyni í kvöld. mbl.is/Valli

Víkingur frá Ólafsvík er kominn í undanúrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir dramatískan 1:0-sigur á nöfnum sínum frá Reykjavík á Víkingsvelli í kvöld. Sasha Litwin skoraði sigurmarkið á 87. mínútu. 

Ólafsvíkingar mæta Breiðabliki í undanúrslitunum á Kópavogsvelli 16. ágúst en Stjarnan og FH mætast í hinum undanúrslitaleiknum degi áður.

Heimamenn byrjuðu af krafti og settu nokkra pressu að marki Ólsara á fyrstu mínútunum, en ekki tókst að skora. Gestirnir komust betur inn í leikinn eftir nokkrar mínútur en það gekk illa fyrir bæði lið að ná upp alvöruspili og varð leikurinn leiðinlegri eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og var staðan í hálfleik markalaus.

Síðari hálfleikurinn var nákvæmlega eins. Það var afar lítið um færi og knattspyrnan ekki í háum gæðaflokki. Fyrsta skot leiksins sem rataði á markið kom á 87. mínútu er Sasha Litwin skoraði fyrir Ólafsvíkinga af stuttu færi eftir góðan undirbúning Gonzalo Zamorano.

Heimamenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn undir lokin en það tókst ekki og Víkingur Ólafsvík leikur í undanúrslitum í annað skipti frá upphafi. Það gerðist síðast árið 2010 er liðið var í 2. deild.

Víkingur R. 0:1 Víkingur Ó. opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert