Voru Valsarar grálega leiknir í Þrándheimi?

Guðjón Pétur Lýðsson og Anders Trondsen í leiknum í kvöld.
Guðjón Pétur Lýðsson og Anders Trondsen í leiknum í kvöld. Ljósmynd/NTB/scanpix

Valsarar eru úr leik í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir 3:1-tap gegn Rosenborg á Lerkendal-leikvanginum í Þrándheimi í ágætum leik sem verður þó minnst fyrir bagalegt kvöld dómarans frekar en hetjulega frammistöðu Hlíðarendapilta.

Íslandsmeistararnir unnu frækinn sigur á norsku meisturunum á Hlíðarenda í síðustu viku, 1:0, og voru grátlega nálægt því að verða fyrstir íslenskra liða til að slá út norskt lið í Evrópukeppni þegar Stefan Apostolov, búlgarskur dómari leiksins, gaf heimamönnum vítaspyrnu í uppbótartíma.

Stefan Apostolov, búlgarski dómarinn, fær ekki jólakort frá Ólafi Jóhannessyni ...
Stefan Apostolov, búlgarski dómarinn, fær ekki jólakort frá Ólafi Jóhannessyni í ár. Ljósmynd/NTB/scanpix

Hann hafði þar áður gefið heimamönnum aðra ódýra vítaspyrnu og þar að auki fengu Valsarar sína eigin vítaspyrnu í síðari hálfleik sem reyndist kolrangur dómur. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsara, gaf í skyn með handabendingum undir lok leiks að Búlgaríumaðurinn hefði þegið mútur, svo afleit þótti frammistaða hans. Hún var þó auðvitað ekkert meira en bara það, afleit, og mun Ólafi vonandi renna reiðin og hann iðrast hegðunar sinnar þegar hann horfir til baka á kvöldið í Þrándheimi.

Þetta væri annars í annað sinn í sumar sem Ólafur ýjar að því að óhreint mjöl sé í pokahorni þeirra sem að knattspyrnunni koma en hann lét hafa það eftir sér að samið hafi verið um stórsigur Víkinga á Völsungi um árið. Úrslitin urðu til þess að Víkingar fóru upp um deild á kostnað Hauka sem Ólafur stýrði á þeim tíma.

Ólafur Jóhannesson á hliðarlínunni á Lerkendal-leikvanginum.
Ólafur Jóhannesson á hliðarlínunni á Lerkendal-leikvanginum. Wold, Ole Martin,NTB / scanpix

Það eru nefnilega fáir jafnkunnugir óréttlæti í íþróttum eins og einmitt Valsarar þegar horft er til síðustu ára.

Kat­ast­rófa og hand­bolt­an­um til skamm­ar

Valsmenn voru flautaðir úr leik, í orðsins fyllstu merkingu, í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik fyrir rúmu ári þegar þeir spiluðu gegn Poitassa Turda í Rúmeníu. Valsarar höfðu þá unnið heimaleikinn á Hlíðarenda með átta mörkum og voru eflaust margir farnir að láta sig dreyma um úrslitaleikinn sjálfan þegar þeir lentu á tékkneska dómaraparinu í Turda.

Valsarar töpuðu leiknum með níu mörkum þökk sé frammistöðu dómaranna sem var handknattleiksíþróttinni til háborinnar skammar.

„Dómgæsl­an var kat­ast­rófa frá upp­hafi til enda. Hún var öll á bandi Turda,“ sagði Guðlaug­ur Arn­ars­son, annar þjálfari Valsara, eftir leikinn. „Svona nokkuð hélt ég að væri úr sög­unni og hafði bara heyrt sög­ur af þessu frá í gamla daga,“ bætti hann við.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, mótmælir í leikslok í Turda.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, mótmælir í leikslok í Turda. mbl.isMircea Rosca/ActionFoto.ro

Valsmenn tóku þá ákvörðun að kæra ekki framkvæmd leiksins til Handknattleikssambands Evrópu enda nær ómögulegt að vinna slík mál. „Lög­fræðing­ur okk­ar hef­ur farið yfir kær­ur til EHF vegna svipaðra mála og þar ber allt að sama brunni. Mál­un­um virðist stungið und­ir teppið eða eitt­hvað þvíum­líkt,“ sagði Óskar Bjarni Óskars­son, þáverandi þjálf­ari Vals, við mbl.is. Valsarar mótmæltu þó kröftuglega og ákváðu að taka ekki aftur þátt í keppnum EHF.

Það er dapurt hvernig Valsarar duttu úr keppni í Meistaradeildinni í kvöld eftir bagalega frammistöðu Apostolov frá Búlgaríu en við skulum ekki láta bræði og samsæriskenningar varpa skugga á það frábæra afrek Valsara að vera síst lakari aðilinn gegn einu stærsta liði Skandinavíu í 180 mínútur af oft og tíðum frábærum fótbolta. Evrópuævintýri þeirra er heldur ekki lokið, á fimmtudaginn kemur fara þeir til Andorra og mæta FC Santa Coloma í undankeppni Evrópudeildarinnar. Áfram gakk.

mbl.is