FH og Stjarnan eru á leiðinni til Ísraels og Danmerkur

Stjarnan gerði ansi vel í fyrri leiknum við Nömme Kalju …
Stjarnan gerði ansi vel í fyrri leiknum við Nömme Kalju og vann sannfærandi 3:0-sigur. Haraldur Jónasson/Hari

FH og Stjarnan eru í sannkölluðu dauðafæri til að komast í 2. umferð Evrópudeildar UEFA í fótbolta en nágrannafélögin úr Kraganum hefja bæði leik í kvöld með 3:0 forskot. Eyjamenn geta hinsvegar lítið annað gert en notið þess að spila Evrópuleik þegar þeir mæta til leiks í Sarpsborg í Noregi með 4:0 ósigur á heimavelli á bakinu.

FH-ingar taka á móti Lahti frá Finnlandi í Kaplakrika í kvöld klukkan 19.15, og njóta þess heldur betur að hafa skorað þrívegis í fyrri leiknum í Finnlandi. Sá markamunur kom talsvert á óvart enda hefur ríkt talsvert jafnræði með íslenskum og finnskum liðum, ef ósigrar KR gegn HJK um árið eru undanskildir. Lahti hafði reyndar tapað tveimur leikjum í röð heima fyrir og sigið niður í 6. sæti en liðið er hinsvegar aðeins stigi frá þriðja sæti finnsku úrvalsdeildarinnar og hefur einungis tapað þrisvar í fyrstu 18 leikjum sínum á þeim vettvangi.

En FH er í sannkölluðu dauðafæri og við Hafnfirðingum blasa leikir gegn Hapoel Haifa frá Ísrael næstu tvær vikur.

Stjarnan fór með 3:0 forskot til Eistlands eftir sannfærandi frammistöðu gegn Nömme Kalju, toppliðinu í eistnesku „meistaradeildinni“. Nömme er taplaust eftir 18 umferðir heima fyrir og skoraði sextán mörk í tveimur síðustu leikjum fyrir sumarfrí, en þess ber að geta að liðið hafði ekki leikið deildarleik í mánuð þegar það mætti á Samsung-völlinn í Garðabæ.

Stjarnan hefur ekki tapað leik í neinu móti síðan í byrjun maí og er með allt í hendi sér fyrir leikinn í kvöld. Komist Stjörnumenn áfram mæta þeir líklega FC Köbenhavn sem vann KuPS frá Finnlandi 1:0 á útivelli í fyrri leik liðanna.

Leikmenn Sarpsborg, sem eru í 6. sæti norsku úrvalsdeildarinnar, mæta eflaust afslappaðir til leiks gegn ÍBV í kvöld. Við þeim blasa viðureignir gegn St. Gallen frá Sviss í 2. umferð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert