Fór eins vel og það gat farið

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er tilhlökkun eftir mjög góða frammistöðu á fimmtudaginn. Það er hálfleikur núna og við erum brattir og undirbúum okkur fyrir hann eins og aðra leiki og til að vinna,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is. FH leikur síðari leik sinn við Lahti frá Finnlandi í forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta kl. 19:15 í kvöld. FH vann sannfærandi 3:0-sigur á útivelli í fyrri leik liðanna. 

„Við vissum að þetta væri lið sem getur spilað fótbolta og við vissum að þetta væri lið sem er búið að vera að standa sig prýðilega í deildinni. Fyrir hálfum mánuði sá ég þá vinna HJK, sem er með mikla yfirburði í finnsku deildinni. Það var mjög góður leikur hjá þeim og við vissum að þeir væru með skeinuhætt lið.

Frammistaða FH-liðsins var þannig að við vorum góðir í því sem við vorum að gera, við vorum þéttir í vörn og nýttum færin okkar vel og skoruðum frábær mörk ásamt því að skapa færi til að skora enn fleiri. Við bjuggumst ekki við þeim sterkari eða veikari, þetta var svipað eins og ég átti von á.“

Virkilega góð gæði í þessu

Steven Lennon skoraði glæsilegt mark í leiknum er hann lék á varnarmann með fallegum snúningi áður en hann vippaði með afar snyrtilegum hætti yfir markmanninn. 

„Hann lenti í einn á einn stöðu á móti varnarmanni sem við vorum búnir að undirbúa að reyna að koma honum í. Þessi miðvörður er ekki sá sterkasti í þessari stöðu en það er nánast sama hverjum hann hefði lent á móti þarna, það voru virkilega góð gæði í þessu.“

Ólafur á von á því að Finnarnir reyni að sækja á FH-liðið frá byrjun og reyna að koma inn marki snemma. 

„Við verðum að halda okkar sjálfstrausti í liðinu og við megum ekki fara of varkárt í leikinn og bíða eftir að eitthvað gerist. Við þurfum að taka stjórnina án þess að galopna okkur. Þeir munu reyna að skora snemma og gera þetta að leik og við þurfum að vera klókir.“

Guðmundur Kristjánsson og Rennico Clarke fóru báðir út af með höfuðmeiðsli í fyrri leiknum. Sauma þurfti tíu spor í Guðmund, en allar líkur eru á að þeir gætu báðir verið með í kvöld. 

„Þetta lítur ekki út fyrir að vera meira en stór skurður hjá Gumma og kúla á Rennico Clarke, hvorugur þeirra er með hausverki eða vanlíðan eftir þetta. Sem betur fer virðist þetta hafa farið eins vel og þetta gat farið,“ sagði Ólafur Kristjánsson að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert