Erfitt að kveðja núna

Selma Sól Magnúsdóttir lagði upp mark í dag.
Selma Sól Magnúsdóttir lagði upp mark í dag. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við þurftum að vera þolinmóðar, við leyfðum þeim að vera með boltann en við vorum góðar í skyndisóknum og það skilaði okkur sigri. Ég er mjög ánægð með það," sagði Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður Breiðabliks, eftir 2:0-sigur á Val í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta. 

Valskonur voru meira með boltann, en Breiðablik varðist vel og komu í veg fyrir að þær náðu að skapa sér alvöru færi. 

„Þær fengu að vera með boltann og við lokuðum vel á þær. Þær áttu eiginlega aldrei séns og mér leið mjög vel þegar þær voru með boltann. Við höfum verið að spila agaðan varnarleik og það hefur skilað okkur góðum úrslitum hingað til. Við höldum því bara áfram."

Selma lagði upp síðara markið á Berglindi Björgu Þorvalsdóttur með fallegri stungusendingu. Hún var að leika sinn næstsíðasta leik og síðasta heimaleik áður en hún fer út til Bandaríkjanna í nám. Hún spilar því ekki bikarúrslitaleikinn. 

„Það er gott að hafa eina svona frammi, hún skorar. Það er gaman að leggja upp og gott að vita af Berglindi frammi. Þetta var síðasti heimaleikurinn minn og svo fer ég út, það er erfitt að kveðja núna en ég verð alltaf að styðja þær," sagði Selma Sól að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert