Völsungur vann toppslaginn í Mosfellsbæ

Guðmundur Óli Steingrímsson hefur skorað fimm mörk fyrir Völsung í …
Guðmundur Óli Steingrímsson hefur skorað fimm mörk fyrir Völsung í C-deildini í sumar. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Fjórir leikir fóru fram í 12. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í dag og þar tapaði topplið Aftureldingar sínum fyrsta leik á tímabilinu.

Völsungur hafði betur gegn Aftureldingu í toppslag deildarinnar í Mosfellsbæ, 2:1. Andri Freyr Jónasson kom heimamönnum yfir á 30. mínútu en Elvar Baldvinsson jafnaði metin fyrir gestina á 41. mínútu áður en Travis Nicklaw skoraði sigurmark leiksins á 76. mínútu. Afturelding er áfram á toppi deildarinnar með 25 stig en Völsungur er nú stigi á eftir þeim með 24 stig.

Þá gerðu Huginn og Þróttur Vogum jafntefli, 1:1 á Seyðisfirði þar sem Viktor Smári Segatta kom gestunum yfir á 41. mínútu. Nenad Simic jafnaði metin fyrir Huginn á 58. mínútu en heimamenn eru á botni deildarinnar með 5 stig en Þróttarar eru í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig.

Víðir Garði vann svo 3:1-sigur á Hetti í Garðinum þar sem Mehdi Hadraoui og Fannar Orri Sævarsson komu heimamönnum yfir snemma leiks. Andri Gíslason skoraði svo þriðja mark Víðismanna á 62. mínútu áður en gestunum tókst að klóra í bakkann á lokamínútunum. Víðir er í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig en Höttur er í níunda sætinu með 11 stig.

Grótta burstaði svo Tindastól á Sauðárkróki, 4:0 þar sem að öll mörk leiksins komu í síðari hálfleik. Björn Axel Guðjónsson kom Gróttu yfir á 54. mínútu og Ásgrímur Gunnarsson tvöfaldaði forystu gestanna, þrettán mínútum síðar. Pétur Theódór Árnason skoraði svo þriðja mark Gróttumanna á 87. mínútu áður en Ásgrímur Gunnarsson innsiglaði sigur gestanna á 89. mínútu með fjórða marki leiksins. Tindastóll er í ellefta sæti deildarinnar með 7 stig en Grótta er í þriðja sætinu með 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert