Ekki alltaf hægt að leggja rútunni

Halldór Smári Sigurðsson tók við fyrirliðabandinu hjá Víkingum í dag …
Halldór Smári Sigurðsson tók við fyrirliðabandinu hjá Víkingum í dag eftir að Sölvi Geir Ottesen fór meiddur af velli. mbl.is/Valli

„Við áttum aldrei séns í þessum leik. Það hjálpaði okkur ekki að missa Sölva og Ricky út af vegna meiðsla en það er samt engin afsökun fyrir þessari frammistöðu í dag," sagði Halldór Smári Sigurðsson, varnarmaður Víkinga eftir 4:1-tap liðsins gegn Val í 13. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Það var Nikolaj Hansen sem skoraði eina mark Víkinga í leiknum í stöðunni 3:0 en Andri Adolphsson skoraði tvívegis fyrir Valsara og þeir Kristinn Ingi Halldórsson og Birkir Már Sævarsson sitt markið hvor.

„Mér fannst við vera eftirá í öllum þáttum leiksins. Við vorum búnir að fara vel yfir það, fyrir leik, hvernig við ætluðum að spila í dag. Það hefur verið mikið leikjaálag á okkur upp á síðkastið. Við erum búnir að spila fjóra leiki núna á tólf dögum og ég er ekki að nota það sem afsökun eða neitt slíkt en við vorum algjörlega búnir á því í seinni hálfleik og skiptingarnar búnar.“

Sölvi Geir Ottesen og Ricky Ten Voorde fóru meiddir af velli snemma leiks og það hafði áhrif á leik liðsins. Þá var sóknarleikur Víkinga dapur og Halldór segir að þeir þurfi að leggja meiri áherslu á hann í næstu leikjum.

„Ég skal alveg viðurkenna það að það kom smá uppgjöf í okkur þegar að Sölvi og Ricky fóru af velli. Það sást kannski best að þegar að við vorum að klikka á sendingum þá fóru menn að hengja haus og fórna höndum í staðinn fyrir að halda bara áfram. Við erum búnir að vera leggja mikla áherslu á varnarleikinn en við þurfum að fara sýna meira sóknarlega. Það er ekki hægt að mæta inn í hvern einasta leik og ætla að leggja bara rútunni. Það var lítið bit hjá okkur, fram á við í dag og við þurfum að fara betur yfir það í vikunni,“ sagði Halldór Smári að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert