Ljóst að ég gerði mistök

Helgi Sigurðsson fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Helgi Sigurðsson fylgist með sínum mönnum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Helgi Sigurðsson var að vonum ósáttur eftir 5:1 tap gegn KA á Akureyri í 13.umferð Pepsi-deildar karla nú í kvöld. Spurður um fyrstu viðbrögð sagði Helgi:

„Mjög slæmt tap, við komum ágætlega inn í leikinn og það var jafnvægi með liðunum í upphafi. Svo fáum við á okkur mark, látum það þó ekki brjóta okkur niður og fáum víti til að koma okkur aftur inn í leikinn og það var hundfúllt að það skyldi misfarast.

Við komum vel inn í seinni hálfleikinn og menn voru staðráðnir  í að koma sterkir inn. Svo verður þetta erfitt þegar þú ert 10 á móti 11 í hálftíma. Auðvitað eru menn að reyna en við vorum aldrei nálægt því að komast inn í leikinn eftir það.“

Ásgeir Eyþórsson fékk sitt annað gula spjald í seinni hálfleik en hann var heppinn að hanga inni á vellinum í fyrri hálfleik. Hefði mátt skipta honum útaf í hálfleik?

„Já, það er alveg ljóst að ég gerði mistök þar. Á meðan menn geta ekki haldið sér inni á vellinum þá er það þannig. Ásgeir hefur gert marga góða hluti og ég ekkert að kenna honum um þetta, við vorum komnir tvö núll undir þegar þetta gerðist og þetta er ekki það sem gerir útslagið.“

„Við erum með unga vörn og unga markmann sem hafa litla reynslu í deildinni. Þeir þurfa sinn tíma. Við komum sterkir inn í þetta mót, síðan þegar mótlæti kemur þá fara menn kannski inn í skel og það eru ekkert bara þeir ungu í liðinu. En við höfum ennþá fulla trú á þessum strákum.“

Ólafur Ingi Skúlason er kominn með leikheimild með Fylki en spilaði þó ekki í dag. Helgi sagði það hafa verið vitað fyrir:

„Ólafur var með fjölskyldunni í fríi efir HM og við vissum alveg af því að hann væri ekki að koma til okkar strax þannig að það var ekkert óvænt í því. Hann er klár í næsta leik en við verðum að passa okkur á því að Ólafur mun ekki snúa hlutunum við einn síns liðs. Það þurfa allir að stíga upp. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert