Sex leikir í efstu deildum í dag

Kristinn Steindórsson og Arnþór Ari Atlason mætast í kvöld þegar …
Kristinn Steindórsson og Arnþór Ari Atlason mætast í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti FH. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm af sex leikjum þrettándu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í dag og kvöld en Stjarnan og Valur mæta til leiks jöfn að stigum á toppnum þar sem markatalan er Garðabæjarliðinu í hag.

Fjölnir tekur á móti ÍBV í fyrsta leiknum klukkan 14 á Extra-vellinum í Grafarvogi. Þetta er lykilleikur í botnbaráttunni, liðin eru bæði með 12 stig í níunda og tíunda sætinu, einu stigi fyrir ofan Fylki sem er í fallsæti. Eyjamenn koma nánast beint frá Noregi þar sem þeir mættu Sarpsborg á fimmtudagskvöldið. Liðin mættust í Eyjum í annarri umferðinni í vor og skildu þá jöfn, 1:1.

Valur tekur á móti Víkingi í grannaslag á Hlíðarenda klukkan 16 og það er athyglisverð viðureign. Valsmenn stóðu sig mjög vel á móti Rosenborg í tveimur leikjum á meðan Víkingar hafa unnið þrjá síðustu leiki sína í deildinni og gjörbreytt stöðu sinni þar. Valsmenn gætu teflt fram sænska varnarmanninum Sebastian Hedlund í fyrsta skipti en hann kom til þeirra frá Kalmar á dögunum og er kominn með leikheimild. Víkingar hafa beðið eftir því að Kári Árnason kæmi inn í lið þeirra og spurning hvort hann klæðist Víkingstreyjunni í fyrsta skipti í fjórtán ár í dag. Davíð Örn Atlason úr Víkingi verður ekki með en hann er í leikbanni.

KA mætir Fylki á Akureyrarvelli klukkan 17 og þar er annað einvígi í neðri hluta deildarinnar. KA er með 15 stig í áttunda sætinu og gæti rifið sig af mesta hættusvæðinu með sigri. Fylkismenn eru næstneðstir með 11 stig og hafa tapað fjórum leikjum í röð þar sem þeir hafa fengið á sig 12 mörk. Ólafur Ingi Skúlason gæti spilað sinn fyrsta leik með þeim í 15 ár og það myndi styrkja þá talsvert. KA getur teflt fram kantmanninum Vladimir Tufegdzic sem liðið fékk frá Víkingi í vikunni. Elfar Árni Aðalsteinsson spilar hinsvegar ekki með KA þar sem hann tekur út leikbann.

Guðjón Baldvinsson og Albert Watson mætast í Vesturbænum með KR …
Guðjón Baldvinsson og Albert Watson mætast í Vesturbænum með KR og Stjörnunni í dag. mbl.is/Hari

KR og Stjarnan eigast við í Vesturbænum og þar verður líka flautað til leiks klukkan 17. Stjörnumenn hafa verið á mikilli siglingu, unnið sex leiki í röð í deildinni, eru komnir í undanúrslit bikarsins og 2. umferð Evrópudeildarinnar. Þeir eru efstir í deildinni með 25 stig, eins og áður sagði. KR-ingar eru 17 stig í 6. sæti og skoruðu fimm mörk gegn Fylki í síðasta leik. Eina tap Stjörnunnar í deildinni kom gegn KR í 2. umferðinni í vor.

Breiðablik tekur á móti FH klukkan 19.15 á Kópavogsvelli og þar er heldur betur um mikilvægan leik að ræða því Breiðablik er með 22 stig í þriðja sæti og FH 19 stig í fjórða sæti. Þetta eru þau tvö lið sem virðast hafa burði til að elta Stjörnuna og Val og stigin sem þau slást um í kvöld eru því dýrmæt. FH-ingar mega sérstaklega ekki við því að tapa, ætli þeir sér að vera með í baráttunni. Blikar unnu þá 3:1 í Krikanum í vor. Færeyingurinn Jákup Thomsen sem FH fékk lánaðan frá Midtjylland á dögunum er kominn með leikheimild og gæti spilað sinn fyrsta leik í kvöld.

HK/Víkingur tekur á móti Íslandsmeisturum Þórs/KA í fyrsta leik elleftu umferðar Pepsi-deildar kvenna á Víkingsvellinum klukkan 16. Nýliðarnir í HK/Víkingi hafa komið skemmtilega á óvart en eftir þrjá sigra í röð eru þeir komnir upp í fimmta sæti með 13 stig. Þór/KA virðist ætla að heyja einvígi við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn og er eina taplausa lið deildarinnar með 26 stig í öðru sæti, stigi á eftir Blikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert