Gústi fær ekki heiðurinn

Gísli Eyjólfsson kom Blikum á bragðið í kvöld gegn Keflavík …
Gísli Eyjólfsson kom Blikum á bragðið í kvöld gegn Keflavík með laglegu marki. mbl.is/Eggert

„Við vissum það fyrir fram að þetta yrði þolinmæðisvinna að brjóta þá á bak aftur. Þeir lágu djúpt tilbaka en við ætluðum samt sem áður að reyna að skora snemma. Það gekk brösuglega í fyrri hálfleik en svo loksins kom þetta,“ sagði Gísli Eyjólfsson, miðjumaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins á Keflavík í 14. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Gísli kom Blikum á bragðið með marki af stuttu færi í upphafi síðari hálfleiks eftir laglega fyrirgjöf Arons Bjarnasonar. Blikar voru duglegir að koma boltanum fyrir markið í fyrri hálfleik en alltaf vantaði mann á svæðið til þess að reka lokahnút á sóknina og var Gísli spurður að því hvort Ágúst Gylfason, þjálfari liðsins, hefði farið yfir þessi mál í hálfleik.

„Það var ekki farið neitt sérstaklega yfir þetta í hálfleik og Gústi fær ekki heiðurinn af þessu marki hjá mér. Við vorum búnir að vera að komast á bak við þá á köntunum og strákarnir voru að koma með góða bolta fyrir markið. Þetta var bara eitt af þessum augnablikum þar sem boltinn datt fyrir mig eftir frábæran undirbúning Arons og eftirleikurinn var auðveldur.“

Gaman í Kópavogi

Keflvíkingar settu pressu á Blika undir lokin og var Gísli ósáttur með það að hleypa heimamönnum inn í leikinn þegar svo skammt var eftir.

„Það kom smá pirringur í okkur eftir að þeir skora. Við vorum með algjörar tögl og hagldir á leiknum og þá fá [þeir] þetta víti. Ég sá það ekki nægilega vel hvað gerðist þarna en það var algjör óþarfi hjá okkur að taka sóknarmann Keflvíkinga niður þarna og bjóða hættunni heim.“

Blikar eru nú í þriðja sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Stjarnan og einu stigi minna en topplið Vals.

„Okkur líður vel þessa dagana og við erum að spila vel. Breiðabliki gengur allt í haginn og nú er bara að halda áfram á þessari siglingu,“ sagði Gísli léttur í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert