Rosalega súr með þessa niðurstöðu

Orri Þórðarson þjálfari FH-inga.
Orri Þórðarson þjálfari FH-inga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orri Þórðarson þjálfari FH-inga var að vonum daufur í dálkinn eftir tap síns liðs gegn Selfyssingum þegar liðin áttust við í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

FH-liðið var töluvert betra liðið í leiknum og réð ferðinni lungann úr leiknum en Selfyssingar fögnuðu sætum sigri 1:0. Staða FH er því orðin ansi svört. Liðið er eitt og yfirgefið á botni deildarinnar og flest bendir til þess að Hafnarfjarðarliðið falli úr deild þeirra bestu í haust.

„Ég er rosalega súr með þessa niðurstöðu. Við áttum þennan leik gjörsamlega og ég skil ekki hvernig okkur tókst ekki að skora mark en Selfoss-liðið er með frábæran markvörð. Mér fannst spilamennska míns liðs virkilega góð og þess vegna var mjög svekkjandi að fá ekkert út úr þessum leik,“ sagði Orri við mbl.is eftir leikinn.

„Ég viðurkenni að þetta lítur ekki vel út hjá okkur en við höfum ekki lagt árar í bát. Það eru 15 stig eftir í pottinum og við ætlum okkur að reyna að taka eins mörg stig af þeim og við getum. Það er sama hvernig þetta fer. Framtíðin hjá FH er mjög björt. Þetta er mjög ungt lið og þessar stelpur eru að fá dýrmæta reynslu. Ef við höldum þessu hópi áfram þá er þetta kjarni sem á að geta verið á meðal bestu liða landsins innan fárra ára,“ sagði Orri.

mbl.is