Sannfærandi hjá Þór/KA í Meistaradeildinni

Þór/KA á úrslitaleik fyrir höndum.
Þór/KA á úrslitaleik fyrir höndum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þór/KA lék annan leik sinn í 1. riðli Meistaradeildarinnar í kvöld í Belfast í N-Írlandi. Mótherjarnir voru Írarnir í Wexford Youths og sáu þær írsku aldrei til sólar í leiknum. Þór/KA var með undirtökin frá upphafsflauti og staðan var orðin 3:0 eftir átján mínútur. Þrátt fyrir fjölmörg færi í leiknum urðu mörkin ekki fleiri og lauk því leiknum 3:0.

Fyrsta markið skoraði Sandra María Jessen eftir góðan undirbúning hjá Huldu Ósk Jónsdóttur. Hulda Björg Hannesdóttir bætti við skallamarki eftir fasta hornspyrnu frá Andreu Mist Pálsdóttur. Hulda Ósk potaði svo boltanum í mark eftir skot frá Stephany Mayor. Eftir þessa veislu í upphafi leiks virtist sem leikmenn misstu aðeins einbeitinguna og ætluðu að gera hlutina sjálfir eða með einhverjum stælum. Því lokaðist fyrir markaskorið fram að hálfleik.

Þór/KA vantaði eitt mark í viðbót til að komast upp fyrir Ajax á markatölu og langt fram í seinni hálfleikinn lágu norðankonur í sókn. Þegar leið á leikinn dró af leikmönnum, enda mikið búið að mæða á þeim í leikjunum tveimur. Írsku valkyrjurnar sóttu í sig veðrið og áttu einhverjar tilraunir sem Stephanie Bukovec hirti af öryggi. Mikið vantaði upp á í gæði sendinga og Þór/KA fékk nánast engin almennileg færi í seinni hálfleiknum.

Þór/KA og Ajax spila hreinan úrslitaleik á mánudaginn um það hvort liðið sigrar riðilinn og kemst áfram í 32-liða úrslitin. Liðin hafa bæði unnið báða leiki sína en markatala Ajax er betri. Þór/KA verður því að vinna leikinn til að komast í efsta sæti riðilsins. Jafntefli gæti vel dugað þar sem tvö lið með bestan árangur í öðru sæti í riðlunum tíu komast einnig áfram.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, meiddist í fyrri hálfleik og þurfti að fara af velli. Óvíst er með þátttöku hennar í lokaleiknum.

mbl.is