Stjarnan náði í þrjú stig í Grindavík

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir/Páll Ketilsson

Öflugt lið Stjörnunnar er smám saman að koma sér örlítið nær toppliðunum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu en í kvöld sótti liðið þrjú stig á Grindavíkurvöll í 13. umferðinni. Stjarnan hafði betur 2:1 við erfiðar aðstæður.  

Stjarnan er í 4. sæti með 25 stig en Grindavík er í 9. sæti með 9 stig. Grindavík vann fyrri leik liðanna í Garðabæ í sumar 3:2 og Garðbæingar létu það ekki endurtaka sig í kvöld. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan markalaus en Grindvíkingar léku þá undan sterkum vindi en tókst ekki að nýta sér það nægilega vel. 

Harpa Þorsteinsdóttir kom Stjörnunni yfir með laglegu marki strax í upphafi síðari hálfleiks og lagði upp annað fyrir Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur á 54. mínútu. 

Þá virtist sem Stjarnan myndi landa öruggum sigri en Grindvíkingar gáfust ekki upp og sköpuðu sér marktækifæri gegn vindinum. Rio Hardy fékk tvö dauðafæri. Í fyrra skiptið sá Berglind Hrund Jónsdóttir við henni í markinu en í síðara skiptið skoraði Hardy og minnkaði þá muninn í 2:1 á 68. mínútu. 

Bæði lið fengu færi eftir þetta en mörkin urðu ekki fleiri. 

Grindavík 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með 2:1 sigri Stjörnunnar.
mbl.is