Yrðu vonbrigði að fara ekki upp

Ragna Lóa Stefánsdóttir og Kjartan Stefánsson fara yfir málin.
Ragna Lóa Stefánsdóttir og Kjartan Stefánsson fara yfir málin. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta er leikur sem við erum búin að vera bíða eftir í þó nokkurn tíma og hann leggst vel í mig. Við erum í smá vandræðum með meiðsli og það gæti sett einhver strik í reikninginn hjá okkur en heilt yfir þá er ég sáttur með standið á leikmannahópnum,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálf­ari Fylkis í In­kasso-deild kvenna í knatt­spyrnu, í sam­tali við mbl.is í vik­unni.

Fylkiskonur eru í öðru sæti deildarinnar með 27 stig eftir fyrstu tíu leiki sína en liðið mætir Keflavík á Nettóvellinum í Keflavík í kvöld klukkan 19:15 í toppslag deildarinnar en heimakonur eru í efsta sæti deildarinnar með 31 stig eftir ellefu leiki spilaða.

„Næstu tveir leikir okkar á móti Keflavík, í dag og svo 20. ágúst, eru úrslitaleikir um það hvort liðið stendur uppi sem sigurvegari í deildinni í haust, það er alveg klárt mál. Það má hins vegar ekki gleymast að það eru líka lið fyrir neðan okkur í deildinni sem eru að banka á dyrnar. Það munar til dæmis ekki miklu á okkur ÍA og ef við töpum þessum tveimur leikjum gegn Keflavík þá eru ÍA bara tveimur stigum á eftir okkur. Við eigum eftir að mæta ÍA og Haukum og við töpuðum fyrir Haukum í fyrri umferðinni þannig að það á mikið eftir að gerast í þessu enn þá.“

Thelma Lóa Hermannsdóttir er farin utan í nám og missir …
Thelma Lóa Hermannsdóttir er farin utan í nám og missir því af restinni af tímabilinu með Fylki. mbl.is/Árni Sæberg

Tilbúnar í efstu deild

Eins og áður sagði eru Fylkiskonur með 27 stig í deildinni en liðið hefur unnið níu leiki í sumar og tapað einum. Liðið féll úr úrvalsdeildinni, síðasta sumar, en Kjartan telur að leikmannahópurinn sé tilbúinn að spila í efstu deild á nýjan leik.

„Það yrðu alltaf vonbrigði fyrir okkur í Fylki að fara ekki upp um deild. Heilt yfir, þá höfum við verið að spila vel í sumar, en við höfum líka verið heppnar inn á milli. Við höfum vissulega bara tapað einum leik í sumar en að sama skapi þá er hellingur eftir af þessu móti enn þá. Það er mikill vilji hjá stelpunum að spila í úrvalsdeildinni, það er alveg á hreinu. Þetta er nánast sama lið og féll síðasta sumar að undanskyldum útlendingunum og svo Jasmínu og Evu Núru sem fóru í FH. Stelpurnar sem eru hérna þekkja það flestar að spila í úrvalsdeildinni og liðið hefur alla burði til þess að spila þar á næstu leiktíð,“ sagði Kjartan enn fremur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert