Á stað með liðið sem er erfiður

Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari FH-inga, var að vonum daufur í dálkinn eftir tap sinna manna gegn ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag en Eyjamenn unnu þar góðan 2:0 sigur.

„Við erum greinlega á stað með liðið sem er erfiður. Við erum brothættir og það er í mörg horn að líta,“ sagði Ólafur við mbl.is eftir leikinn en þetta var þriðji tapleikur liðsins á heimavelli í deildinni í sumar.

„Við byrjuðum leikinn af rosalegum krafti. Við settum á þá góða pressu, vorum góðir á boltann og sköpuðum okkur færi. Eyjamennirnir náðu síðan að draga tempóið aðeins úr leiknum og við náðum okkur aldrei almennilega inn í það sem við gerðum í byrjun leiksins. Það var kjaftshögg að fá þessi tvö mörk á okkur undir lok fyrri hálfleiksins. Í fyrra markinu spiluðu þeir inn í okkur sem við viljum ekki og gerðu það vel en vítaspyrnudómurinn var tóm þvæla. Það var erfitt fyrir okkur að elta þessi tvö mörk og þetta var ofboðslega seint og þreytt hjá okkur,“ sagði Ólafur.

Möguleikar FH á að blanda sér í baráttu um titilinn virðast vera úr sögunni eftir þennan ósigur en á miðvikudaginn verður mikið í húfi fyrir FH-inga þegar þeir sækja Stjörnumenn heim í undanúrslitum bikarkeppninnar.

„Það eru önnur lið í deildinni sem eru að vinna sína leiki en við ekki. Nú er bara fyrir okkur að reyna að laga þá hluti sem eru ekki í lagi. Við erum með stigi minna núna en í fyrra á sama tíma og það er eitthvað sem við þurfum að vinna okkur út úr. Það má sennilega segja að tímabilið sé undir hjá okkur fyrir þennan leik á móti Stjörnunni. Við munum ekki fá mikið út úr þeim leik með svona frammistöðu,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert