„Erum í baráttu upp á líf og dauða“

Þórður Ingason.
Þórður Ingason. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, var ánægður með að hafa haldið hreinu annan leikinn í röð eftir markalaust jafntefli við KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fjölnir er í tíunda sæti deildarinnar með 15 stig, jafnmörg stig og Fylkir sem er í fallsæti.

„Það er fínt að taka stig og halda hreinu aftur. Gott að byggja ofan á það,“ sagði Þórður við mbl.is eftir leikinn í Vesturbænum í kvöld.

Leikurinn var ekki sá skemmtilegasti á að horfa en Þórður sagði að það skipti Fjölnismenn engu máli. „Manni er alveg sama um það í fallbaráttunni. Þá reynum við bara að safna stigum. Þetta var hörkuleikur sem hefði getað dottið hvoru megin sem var,“ sagði Þórður og bætti við að gestirnir hefðu verið líklegri til að skora:

„Mér fannst við fá betri og opnari færi. Auðvitað hefði verið geggjað að koma inn einu marki og sjá hvort við hefðum tekið öll stigin.“

Markvörðurinn sagði að það væri sérstaklega gott fyrir lið í fallbaráttu að venja sig á það að fá á sig lítið af mörkum. „Við erum í baráttu upp á líf og dauða og hluti af því er að fá á sig lítið af mörkum. Það kemur að því að við skorum og þá er gott að vera búnir að venjast því að fá engin mörk á sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert