„Fyrst og fremst er ég ekki vinstrisinnaður!“

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Valgarður Gíslason

„Fyrst og fremst þurftum við þolimæði í dag. Við mættum góðu liði Fylkis í dag og það var mikil stöðubarátta. Svo varði Halli frábærlega í seinni hálfleik og hélt okkur inni í leiknum. Það var algjör matchwinner-markvarsla og við fengum svo aukinn kraft sóknarlega við að fá Guðmund inn á,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 0:2 sigur á Fylki á útivelli í dag.

Sjá frétt mbl.is: Torsóttur Stjörnusigur í Árbænum

Guðmundur Steinn skoraði tvö eftir að hafa komið af bekknum. Hvaða skilaboð fékk hann frá Rúnari?

„Ekki nein. Ég sagði honum bara að leggja sig fram. Það er hlutverk framherja að skora mörk og ef maður skoðar tölfræðina hans Guðmundar Steins þá er hún mjög góð.“

Hilmar Árni klikkaði úr víti í dag en það er sjaldgæf sjón. Fylkismenn áttu nokkrar hættulega sóknir, fór eitthvað um Rúnar þegar Hilmar Árni brenndi af?

„Það fer alltaf um mig þegar við fáum víti. Ég er svo stressaður þegar við fáum víti. Hann var bara óheppinn að skora ekki. Ef hann klikkar úr víti, þá geta allir klikkað úr víti.“

Hvað fannst þér um rauðaspjaldsdóminn?

„Mér fannst þetta bara klárt rautt spjald. Ég held þetta hafi ekki verið viljandi gert en brotið var ansi brútal. Elís er ljúfur leikmaður en þetta var ljótt brot og klárt rautt,“ sagði Rúnar

Í hálfleik tók Rúnar Jóhann Laxdal af velli og setti vinstrifótarmann inn á í hans stað og var því með vinstrifótarmenn í báðum bakvörðum. Er hann nú orðinn vinstrisinnaður?

„Fyrst og fremst er ég ekki vinstrisinnaður! Jói átti bara ekki sinn dag og mér fannst hann gera of mikið af mistökum og fann sig ekki alveg og ég gerði því skiptingu og fékk Jobba inn sem er vinstrifótarmaður og mjög sókndjarfur. Tóti [Þórarinn Ingi)] skilar síðan öllum stöðum vel sem hann spilar,“ sagði Rúnar að lokum.

mbl.is