„Hann tæklaði mig hátt á legginn“

Guðmundur Steinn skoraði bæði mörk Stjörnunnar í kvöld.
Guðmundur Steinn skoraði bæði mörk Stjörnunnar í kvöld. Valgarður Gíslason

„Það var frábært að vinna leikinn, skora tvö og fiska mann út af. Ég er mjög sáttur,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson, leikmaður Stjörnunnar, sem átti frábæra innkomu í leik liðsins gegn Fylki í kvöld. 

Stjarnan vann 0:2 sigur og gerði Guðmundur bæði mörkin.

Var þetta rautt spjald?

„Hann (Elís Rafn Björnsson) tók ekki boltann en tæklaði mig hátt á legginn þannig að ég held að dómarinn hafi tekið rétta ákvörðun.“

Fylkismenn vildu svo fá rangstöðu dæmda á Guðmund í seinna markinu. Hvað fannst Guðmundi um það atvik?

„Ég held að ég hafi ekki verið rangstæður. En ég hef svo sem ekki sterka skoðun á því fyrst dómarinn dæmdi ekki. 

„Við vorum svolítið lengi í gang og komumst í fínar stöður, sérstaklega í seinni hálfleik en það vantaði lokaskotið eða lokasendinguna. Þetta gekk ekki alveg í byrjun. Þegar ég kom inn á ætlaði ég að reyna að vera í teignum eins mikið og ég gat. Boltarnir voru að koma inn á teiginn, það vantaði bara að hafa einhvern þar. Varnarmenn Fylkis voru að faðma Gauja allan leikinn og það var því pláss fyrir mig,“ sagði Guðmundur.

Hvað finnst honum um toppbaráttuna?

„Mér finnst þetta skemmtilegt. Það er spurning hvað hin liðin gera. Það er gaman að spila þegar það eru þrjú lið í harðri toppbaráttu og það er skemmtilegt að vinna ef maður er vel að því kominn,“ sagði Guðmundur að lokum.

mbl.is