„Vantaði einhvern neista í liðið“

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það eru mikil vonbrigði að hafa ekki spilað betri fótboltaleik,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir markalaust jafntefli KR og Fjölnis í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. KR er að leik loknum í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig.

„Við vorum ekki góðir í dag og leikur okkar í heild sinni er gríðarleg vonbrigði,“ sagði Rúnar.

KR skoraði heldur ekki í síðasta leik, tapaði þá 1:0 fyrir Breiðabliki, og Rúnar gat tekið undir að það væri áhyggjuefni fyrir KR-inga hversu illa gengi að koma boltanum í netið:

„Sérstaklega í dag. Þetta er leikur sem við eigum að skora í en það vantaði einhvern neista í liðið. Það vantaði eitthvað sem gerði það að verkum að við náðum ekki að opna þá en þeir lokuðu reyndar vel á okkur. Við spiluðum fullhægt,“ sagði Rúnar.

Hann benti þó á að KR skoraði eitt mark í fyrri hálfleik. Þá skallaði Kennie Chopart boltann í markið eftir sendingu André Bjerregaard en markið taldi ekki vegna þess að línuvörðurinn mat það svo að Bjerragaard hefði farið með boltann aftur fyrir endamörk.

„Það er áhugavert að sjá hvort boltinn var út af eða ekki því línuvörðurinn er í 50 metra fjarlægð frá atvikinu. Það er sorglegt ef það er niðurstaðan annan leikinn í röð en ég vona ekki.“

mbl.is