Virkilega vel gert hjá strákunum

Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, brosti út að eyrum eftir sigur sinna manna gegn FH-ingum þegar liðin áttust við í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

„Þetta gekk nánast eins og við vorum búnir að leggja upp fyrir leikinn. FH-ingarnir byrjuðu leikinn vel og fengu nokkur hálffæri. Ég var svolítið smeykur í byrjun leiksins. Mér fannst við fálma of mikið á þeim. Við lágum aftarlega en kannski voru menn bara að finna völlinn og finna út styrk FH-liðsins. Við unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn og skiluðum heilt yfir mjög góðum leik. Fyrra mark okkar var stórkostlegt og það góð tilfinning að fara inn í hálfleikinn með tveggja marka forystu.

Mér finnst vera komið ákveðið jafnvægi í liðið og það leit betur út í þessum leik en í mörgum leikjum í sumar. Í seinni hálfleik unnu menn þá vinnu sem þeir áttu að gera og þetta var virkilega vel gert hjá strákunum. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið gríðarlega mikilvæg þrjú stig sem við kræktum í. Við erum ekki búnir að gefa það út hvort við erum í botnbaráttu eða toppbaráttu en stigin okkar segja að við erum nær botnbaráttunni. Með þessum sigri ýttum við okkur fjær botnliðunum sem er vel,“ sagði Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert