„Ekki leiðinlegt að hafa þau tvö“

Viktor Örn Margeirsson í leik með Breiðabliki.
Viktor Örn Margeirsson í leik með Breiðabliki. mbl.is/Golli

Viktor Örn Margeirsson var heldur betur áberandi þegar Breiðablik vann sinn fimmta sigur í röð í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðið vann þá Víking Reykjavík, 3:2, þar sem Viktor skoraði tvö marka Breiðabliks. Hann hafði ekki skorað í efstu deild fyrir leikinn.

„Þetta var gaman. Ég sá fyrir mér að við myndum skora úr föstum leikatriðum og það var gaman að skora. Ekki leiðinlegt að hafa þau tvö,“ sagði Viktor, sem hefur unnið sér inn sæti í vörn Blikaliðsins en haldið Elfari Frey Helgasyni á bekknum. Frammistaðan í kvöld hlýtur að vera enn frekar vatn á myllu hans í samkeppninni.

„Það er mjög góð samkeppni við Damir og Elfar. Við erum með frábæra vörn, sama hver spilar, og gott að hafa góða samkeppni. Fyrst og fremst er ég varnarmaður og hefði viljað halda hreinu,“ sagði Viktor.

Þegar Víkingur komst yfir eftir hálftíma leik varð liðið um leið það fyrsta til þess að skora í fyrri hálfleik gegn Blikum í sumar.

„Maður er alltaf svekktur að fá á sig mark, en það er ekki hægt að fá á sig mark í öllum leikjum. Það er mjög góð stemning í hópnum og það heldur okkur á tánum. Við erum góðir vinir í liðinu og það eru allir að róa í sömu átt. Við höldum okkar striki, erum klárir í hvern einasta leik og þegar við gerum okkar þá náum við yfirleitt góðum úrslitum,“ sagði Viktor Örn Margeirsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert