Mikið fjör og fimmti sigur Blika í röð

Arnþór Ari Atlason og Jorgen Richardsen bítast um boltann á …
Arnþór Ari Atlason og Jorgen Richardsen bítast um boltann á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Valli

Breiðablik gefur ekkert eftir í toppbaráttu Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Liðið vann sinn fimmta leik í röð í deildinni í kvöld þegar það heimsótti Víking Reykjavík í stórskemmtilegum leik. Lokatölur urðu 3:2 fyrir gestina og eru Blikar nú einir á toppi deildarinnar.

Víkingar, sem höfðu tapað þremur leikjum í röð fyrir viðureign kvöldsins, byrjuðu leikinn af miklum krafti án þess þó að skapa sér nein hættuleg færi. Það breyttist hins vegar eftir hálftíma leik þegar Alex Freyr Hilmarsson komst upp að endamörkum hægra megin, sendi þar fyrir og Geoffrey Castillion skoraði með laglegum skalla yfir Gunnleif Gunnleifsson í marki Blika. Urðu Víkingar þar fyrsta liðið til þess að skora gegn Blikum í fyrri hálfleik í allt sumar.

Blikar sóttu í sig veðrið eftir markið og undir lok fyrri hálfleiks kom hreint ótrúlegur kafli þeirra. Á 39. mínútu tók Jonathan Hendrickx aukaspyrnu á hægri kanti sem Viktor Örn Margeirsson skallaði í netið. Hans fyrsta mark í efstu deild. Og ballið var rétt að byrja fyrir Blika.

Aðeins mínútu síðar voru gestirnir komnir yfir. Oliver Sigurjónsson sendi langt fram völlinn, Andreas Larsen í marki Víkinga kom út og ætlaði að taka boltann. Gunnlaugur Fannar Guðmundsson í vörn Víkinga misreiknaði sig hins vegar og snerti boltann svo kollegi hans í markinu gat þá ekki handsamað hann. Á meðan þeir vöfðust hvor fyrir öðrum náði Willum Þór Willumsson boltanum og skoraði í tómt markið. Staðan allt í einu orðin 2:1 fyrir Breiðabliki og þannig var hún í hálfleik.

Mikil spenna allt til leiksloka

Fjörið hélt áfram hjá Blikum eftir hlé þaðan sem frá var horfið. Á 55. mínútu tók Gísli Eyjólfsson aukaspyrnu inn á teig, Willum Þór átti skalla sem var varinn en Viktor Örn náði frákastinu og skoraði sitt annað mark og um leið sitt annað mark í efstu deild. Staðan orðin vænleg fyrir gestina, 3:1.

Víkingar gáfust þó alls ekki upp heldur sóttu þvert á móti frekar í sig veðrið. Það skilaði sér á 63. mínútu þegar tvöfaldi markaskorarinn Viktor Örn braut á Geoffrey Castillion innan teigs og vítaspyrna dæmd. Á punktinn fór varamaðurinn Nikolaj Hansen, skoraði örugglega og hleypti heldur betur spennu í leikinn.

Víkingar sóttu stíft eftir þetta og leituðu jöfnunarmarksins. Bæði lið fengu sín færi en ekki urðu mörkin fleiri. Gunnlaugur Fannar Guðmundsson í liði Víkings fékk hins vegar sitt annað gula spjald í uppbótartíma og þar með rautt. Niðurstaðan 3:2-sigur Blika í stórskemmtilegum leik. Þeir hafa nú 34 stig á toppnum en Víkingar eru með 18 stig í 9. sætinu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

Víkingur R. 2:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Davíð Kristján Ólafsson (Breiðablik) fer af velli Hefur greinilega vankast aðeins og er studdur af velli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert