Sannfærandi hjá Íslandsmeisturunum

Björn Berg Bryde í baráttunni við Patrick Pedersen á Origo-vellinum …
Björn Berg Bryde í baráttunni við Patrick Pedersen á Origo-vellinum í kvöld. mbl.is/Valli

Íslandsmeistarar Vals unnu sannfærandi 4:0-sigur á Grindavík í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir Val, sem var líklegra til að skora fleiri mörk. Valsmenn eru í öðru sæti með 32 stig en Grindavík í 6. sæti með 23 stig. 

Valsmenn voru afar sannfærandi í fyrri hálfleik og var 2:0-forysta þeirra í leikhléi algjörlega verðskulduð. Patrick Pedersen skoraði fyrsta markið á 17. mínútu er hann kláraði einn á móti Kristijan Jajalo eftir fallegan undirbúning Einars Karls Ingvarssonar og Kristins Freys Sigurðssonar.

Pedersen bætti við öðru marki sínu og öðru marki Vals á 34. mínútu er hann kláraði upp í vinkilinn með glæsilegu skoti eftir sendingu Kristins Inga Halldórssonar sem gerði afar vel í að halda boltanum inni á með ótrúlegum spretti. Valsmenn voru líklegri til að bæta við en Grindavík að minnka muninn en mörkin í fyrri hálfleik urðu ekki fleiri.

Grindvíkingar voru þéttari í síðari hálfleik og náðu að skapa sér einhver færi. Illa gekk þó að virkilega reyna á Anton Ara Einarsson í markinu. Valsmenn nýttu sér það og Pedersen fullkomnaði þrennuna á 66. mínútu. Hann komst þá einn í gegn eftir skalla Hauks Páls Sigurðssonar og afgreiddi hann boltann af öryggi í markið.

Eftir markið róaðist leikurinn, en í uppbótartíma vann Kristinn Ingi Halldórsson vítaspyrnu. Tobias Thomsen tók spyrnuna, Jajalo varði, en Kristinn Ingi Halldórsson var fyrstur að átta sig og kláraði upp í þaknetið og þar við sat. 

Valur 4:0 Grindavík opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert