Stjarnan í bikarúrslit á kostnað FH

Robbie Crawford í baráttunni við Jósef Kristin Jósefsson á Samsung-vellinum …
Robbie Crawford í baráttunni við Jósef Kristin Jósefsson á Samsung-vellinum í kvöld. mbl.is/Valli

Stjarnan tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins, eftir sigur á FH í fjörugri undanúrslitaviðureign liðanna í Garðabæ. Lokatölur urðu 2:0 og leikur Stjarnan í þriðja sinn til úrslita og freistar þess að vinna titilinn í fyrsta sinn 15. september næstkomandi.

Það var kraftur í báðum liðum frá upphafi og baráttan í fyrirrúmi. Það gerði leikinn nokkuð hægan en hraðinn fór að aukast eftir því sem á leið. Fyrsta færi leiksins fékk FH og það var sannkallað tvöfalt dauðafæri. Steven Lennon slapp þá í gegn og skaut í stöngina, frákastið barst til Jákup Thomsen en skot hans fór í þverslá á marki Stjörnunnar. Hreint ótrúlegt að sjá.

Lítið var um opin færi eftir þetta en baráttan þeim mun meiri. Það dró í raun ekki til mikilla tíðinda fyrr en rétt undir lok fyrri hálfleiks, nánar tiltekið á 44. mínútu, þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Hilmar Árni Halldórsson tók þá hornspyrnu sem Brynjar Gauti Guðjónsson skallaði og Guðjón Baldvinsson rak svo endahnútinn á sóknina með því að skalla í netið.

FH hefur gengið afleitlega að verjast föstum leikatriðum í sumar og þetta mark kom eftir að Eddi Gomes missti boltann klaufalega aftur fyrir endamörk undir engri pressu. Dýrkeypt og staðan 1:0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Stjarnan lagðist ekki í skotgrafirnar

Síðari hálfleikur byrjaði rólega en það var meira kapp í FH-ingum enda má segja að tímabilið hafi verið undir hjá þeim hvað möguleika á titli varðar vegna erfiðrar stöðu í deildinni. Eftir því sem leið á færðist meiri hraði í leikinn en færin voru þó lengi vel af skornum skammti.

FH leitaði logandi ljósi að jöfnunarmarki en Stjarnan var ekki á því að leggjast í skotgrafirnar. Því til undirstrikunar var miðjumaðurinn og fyrirliðinn Baldur Sigurðsson tekinn af velli og framherjinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson, tveggja marka maður í síðasta leik, settur inn á í hans stað þegar um 25 mínútur voru eftir.

Tíminn fór svo að renna frá FH-ingum sem lögðu allt í sölurnar án þess þó að ná að skapa sér nein hættuleg færi að ráði. Hafnfirðingar fjölguðu í sókninni á kostnað varnarmanna en það voru Stjörnumenn sem áttu síðasta orðið.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka fékk markaskorarinn Guðjón Baldvinsson boltann hægra megin í teignum, renndi honum fyrir markið þar sem varamaðurinn Guðmundur Steinn skoraði af örstuttu færi og gulltryggði 2:0-sigur Stjörnunnar og sæti liðsins í bikarúrslitum í þriðja sinn. Vonbrigðin sem hafa einkennt sumarið í Hafnarfirðinum halda hins vegar áfram.

Stjarnan mætir annaðhvort Breiðabliki eða Víkingi Ólafsvík í úrslitaleik bikarsins á Laugardalsvelli 15. september. Síðari undanúrslitaleikur keppninnar fer fram á morgun.

Stjarnan 2:0 FH opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. FH-ingar sækja stíft.
mbl.is