Þetta er titillinn sem vantar í Garðabæinn

Eyjólfur Héðinsson.
Eyjólfur Héðinsson. mbl.is/Valli

„Þetta er langþráð,“ sagði Eyjólfur Héðinsson, leikmaður Stjörnunnar, við mbl.is eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í knattspyrnu með 2:0-sigri á FH í Garðabænum í kvöld. Stjarnan mun leika til úrslita í þriðja sinn en hefur aldrei unnið þessa keppni.

„Við skitum á okkur í undanúrslitum í fyrra gegn ÍBV í leik sem skildi eftir alveg ömurlega tilfinningu. Mér hefur sjaldan liðið jafnilla eftir tapleik og þá og við höfum í raun beðið í eitt ár eftir að hefna fyrir það. Við vorum næstum því-liðið í fyrra en núna erum við tilbúnir að taka skrefið. Það er komið meira sigurhugarfar, við erum reyndari og klárir í eitthvað meira,“ sagði Eyjólfur.

Hann var fljótur að taka undir það að enn sætara sé að hafa unnið FH í leið sinni að bikarúrslitunum.

„Jú það er klárt. Þetta hafa verið hatrammar viðureignir við FH í gegnum tíðina og að sjálfsögðu er extra sætt að vinna þá. Svo er að sjá hvaða lið við fáum í úrslitum. Ef allt er eftir bókinni þá fáum við Breiðablik og það er líka smá nágrannarígur í því. En það væri gaman að mæta Víkingi Ólafsvík,“ sagði Eyjólfur.

Stjarnan hefur aldrei unnið bikarmeistaratitilinn, en auk þess er liðið í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Menn hljóta að stefna á tvennuna í Garðabænum.

„Já eiginlega þrennuna, við unnum fotbolti.net-mótið líka í vor,“ sagði Eyjólfur og hló við. „En það er klárlega markmið. Við förum ekki í bikarúrslit til þess að taka þátt. Þetta er titillinn sem vantar í Garðabæinn, það er kominn tími til að skapa nýjar minningar. Vonandi vinna stelpurnar á föstudaginn og þá er hægt að fara að tala um góða uppskeru í Garðabænum,“ sagði Eyjólfur, en kvennalið Stjörnunnar leikur bikarúrslitaleik við Breiðablik á föstudagskvöld.

Það ar góð stemning á leiknum í kvöld og búast má við því að stuðningsmenn Stjörnunnar fjölmenni á úrslitaleikinn.

„Garðabærinn er aðeins að vakna. Mér hefur fundist aðeins vanta upp á það að fólk mæti á völlinn. Það var frábær mæting á völlinn í kvöld, fólk er kannski að koma úr sumarfríi. Mér skilst að hálf þjóðin sé flutt til Spánar út af veðráttunni. Vonandi er fólk núna komið til að mæta á völlinn enda margir spennandi leikir fram undan,“ sagði Eyjólfur Héðinsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert