Fimmti úrslitaleikur Stjörnunnar á sjö árum

Stjarnan og Breiðablik mætast í úrslitum Mjólkurbikarsins í dag.
Stjarnan og Breiðablik mætast í úrslitum Mjólkurbikarsins í dag. mbl.is/Valli

Það er alltaf ákveðinn dýrðarljómi í kringum bikarúrslitaleiki. Í þessum leikjum mætast oftar en ekki tvö af betri liðum landsins fyrir framan fullt af fólki í hreinum úrslitaleik. Fyrir mörgum eru þetta stærstu og mikilvægustu leikir ársins. Þetta eru leikirnir sem allir leikmenn vilja komast í. Liðin sem keppa um bikarinn í þetta skiptið eru Stjarnan og Breiðablik en leikurinn fer fram í kvöld á Laugardalsvelli klukkan 19:15.

Stjarnan hefur orðið bikarmeistari þrisvar sinnum í sögu félagsins en fyrsti bikarinn kom í hús árið 2012. Stjörnunni hefur gengið einkar vel í bikarkeppninni undanfarin ár og hefur félagið komist í úrslitaleikinn fimm sinnum á síðustu sjö árum sem verður að teljast mikið afrek. Breiðablik á sér mun lengri sögu í bikarkeppni kvenna. Blikar urðu þannig meistarar fyrstu þrjú árin sem keppt var í bikarkeppni kvenna á árunum 1981-1983 og hafa alls orðið bikarmeistarar ellefu sinnum í sögu félagsins. Líkt og Stjörnunni hefur Breiðabliki gengið vel í bikarkeppninni undanfarin ár og verður þetta í þriðja skipti sem félagið spilar til úrslita á síðustu sex árum. Bæði lið hafa því mikla reynslu af að vera komin í úrslitin og það er að einhverju leiti ótrúleg tilviljun að þetta sé í fyrsta skipti sem liðin mætast í úrslitum keppninnar.

Gengi liðanna misjafnt

Ef miðað er við stöðu liðanna í deildinni verður Breiðablik að teljast sigurstranglegri aðilinn í leiknum. Blikar hafa verið á mikilli siglingu og eru í toppsæti deildarinnar með 34 stig. Liðið hefur aðeins tapað einum leik í allt sumar en tapleikurinn kom á útivelli á móti Íslandsmeisturum Þór/KA. Stjörnunni hefur ekki gengið eins vel. Liðið er í fjórða sæti, níu stigum á eftir Breiðablik, og hefur misst af lestinni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Í Garðabænum hljóta það að vera mikil vonbrigði í ljósi þess hversu mikið hefur verið lagt í liðið.

Ítarlega umfjöllun um úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert