Kom góður fiðringur í magann

Leikmenn Breiðabliks fagna bikartitlinum. Alexandra Jóhannsdóttir heldur hér á Karólínu …
Leikmenn Breiðabliks fagna bikartitlinum. Alexandra Jóhannsdóttir heldur hér á Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í fagnaðarlátunum. mbl.is/Valli

Alexandra Jóhannsdóttir er einn þeirra ungu leikmanna sem sannarlega hafa slegið í gegn með Breiðabliki í sumar. Hún er fædd árið 2000 og kom frá Haukum til Blika fyrir tímabilið og varð í kvöld bikarmeistari með liðinu eftir 2:1-sigur á Stjörnunni. Það var þó ekki að sjá að hún væri að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik.

„Ég myndi nú ekki segja að ég hafi ekki verið stressuð. En þetta er ólýsanlegt og alveg geggjað lið. Þær opnuðu okkur ekkert þannig, við áttum skot í stöng í lokin og hefðum getað klárað þetta 3:1. Þetta var bara geggjað hjá okkur,“ sagði Alexandra við mbl.is í sigurvímu eftir leikinn.

En hvernig var dagurinn í dag þegar beðið var eftir að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik?

„Ég reyndi bara að gera eitthvað annað og undirbúa mig eins og ég væri að spila bara venjulegan leik. Þá minnkaði stressið, en þegar ég labbaði inn á og hitaði upp þá kom góður fiðringur í magann,“ sagði Alexandra.

Blikar eru einnig í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og eiga því möguleika á tvennunni. Hver er lykillinn að þessum árangri liðsins í sumar?

„Ég held það sé bara liðsheildin. Við náum allar ótrúlega vel saman og erum ótrúlega góðar vinkonur. Ég held að það sé það. Við ætlum okkur klárlega annan titil í sumar,“ sagði Alexandra, en verður eitthvert mál að koma sér aftur niður á jörðina eftir þennan sigur í kvöld?

„Ég held að Steini [Þorsteinn Halldórsson þjálfari] sjái alveg um það. Við fáum að fagna um helgina og svo er bara næsti leikur á þriðjudaginn,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert